Kvikmyndahátíðin í Cannes stendur sem hæst um þessar mundir en á meðal þeirra mynda sem frumsýndar eru á hátíðinni í dag er myndin Hvítur, hvítur dagur í leikstjórn Hlyns Pálmasonar.

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem er í sorgarferli eftir að hafa misst eiginkonu sína af slysförum. Í leyfi frá lögreglustörfum hefst hann handa við að byggja hús, en í miðjum klíðum rekst hann á mann sem hann fer að gruna um að hafa átt í ástarsambandi við eiginkonu sína. Hann fær þráhyggju yfir málinu sem leiðir hann til róttækra gjörða með alvarlegum afleiðingum. Hlynur skrifar sjálfur handrit myndarinnar og leikstýrir henni, en framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir Join Motion Pictures og einn yfirframleiðenda er Guðmundur Arnar Guðmundsson. Hvítur, hvítur dagur og er tekin upp á Höfn í Hornafirði á æskuslóðum Hlyns. Meðal leikara eru Ingvar E. Sigurðsson, Hilmir Snær Guðnason og Ída Mekkín Hlynsdóttir .

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, er stödd á hátíðinni. Fyrsta mynd Hlyns, Vetrarbræður, sem fór sigurför um heiminn var sýnd á RIFF fyrir tveimur árum svo Hrönn hefur fylgst með Hlyni um hríð og segir hann stórkostlegan listamann. „Ég er mjög spennt fyrir að sjá Hvítur, hvítur dagur en svo er líka partí í kvöld til að fagna frumsýningunni þannig að dagskráin verður þétt,“ segir Hrönn. „Það er mikil stemning hérna á frumsýningardegi en hingað eru mættir hátt í 40 manns, aðstandendur myndarinnar og makar, til að vera viðstaddir.“

Hrönn segir það gríðarlega góðan árangur að komast í gegnum nálaraugað og inn á Cannes enda er samkeppnin mikil á þessari stærstu og virtastu hátíð í bransanum. „Þegar það er verið að frumsýna íslenskar myndir hér þá er það stórmerkilegt. Hlynur er náttúrulega búinn að geta sér gott orð fyrir Vetrarbræður og það hjálpar til en þetta er risastór skref. Það eru gífurlega margir sem sækja um og heilmikil pólitík að komast að.“

Það er einnig mikilvægt fyrir stjórnendur kvikmyndahátíða að vera viðstadda svona viðburð enda er Cannes stærsti kvikmyndamarkaður í heiminum. „Á yfirborðinu er rauði dregillinn, fína fólkið og allar stjörnurnar en hér er líka verið að sýna fullt af myndum sem koma ekki út fyrr en í haust. Stjórnendur kvikmyndahátíða skoða þessar myndir og ráða ráðum sínum. Við hjá RIFF erum að fylgjast með, sjá hvaða myndir eru að koma og við veljum héðan myndir fyrir RIFF í haust.“ 

Í gær bárust stórar fréttir af RIFF þegar tilkynnt var að franski kvikmyndaleikstjórinn Claire Denis yrði heiðursgestur hátíðarinnar í ár en hún er ein af þeim virtustu í kvikmyndabransanum. Hún á langan feril að baki og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir kvikmyndagerð, síðast hin virtu SACD-verðlaun á Cannes fyrir myndina Un beau soleil intérieur, auk þess sem hún situr í dómnefnd stuttmyndakeppninnar á Cannes í ár. „Hún er að fara að fjalla um svo margt sem skiptir okkur máli svo það verður gaman að fá að kynna hana fyrir Íslendingum,“ segir Hrönn.

Hrönn segist aðspurð hafa rekist á margar stjörnur síðan hún mætti til Cannes enda hátíðarsvæðið lítið og stemningin náin. „Þetta er svo lítill staður og allt fer fram á sömu slóðum svo það er óhjákvæmilegt að rekast á þekkt fólk. Ég rakst á Almodóvar til dæmis um daginn og svo er Jim Jarmusch hérna, hann kom á RIFF fyrir nokkrum árum. Ég er búin að mæla mér mót við hann og konuna hans,“ segir Hrönn.

Rætt var við Hrönn Marinósdóttur í Morgunútvarpinu en innslagið má hlýða á hér fyrir ofan.