Ég heiti Guðrún er hlýlegt en ófrumlegt leikrit um vináttubönd kvenna, sem hugvitssamleg leikstjórn og sterkur leikhópur gera það þess virði að sjá, segir María Kristjánsdóttir í Menningunni.
María Kristjánsdóttir skrifar:
Í Kúlunni í Þjóðleikhúsi var frumsýnt í samstarfi við Leiktóna í síðustu viku leikritið „Ég heiti Guðrún“ eftir dönsku leikkonuna Ricke Wölck sem Magnea Matthíasdóttir hefur snarað, auðvitað lipurlega, á íslensku.
Hér segir frá ógifta barnlausa blaðamanninum Guðrúnu sem hefur átt mikilli velgengni að fagna en fær þann úrskurð fimmtíu og fimm ára að hún sé komin með alzheimer. Eins og við flestar er hún ekki einstæðingur heldur svo lánsöm að eiga vinkonur til að halla sér sér að á erfiðleika- og gleðistundum og af þeim tekur hún það loforð að hún þurfi aldrei að lenda á hjúkrunarheimili. Framvinda sjúkdómsins leiðir svo framvindu verksins: vanda sjúklingsins að halda reisn sinni meðan vitund vakir og vanda vinkvenna hennar þriggja að gleðja hana, sinna henni án þess að sligast undan álaginu. Í stöðugu endurliti yfir líf þeirra fjögurra saman, stundir gleði og sorgar, fáum við að kynnast þeim öllum frekar.
Hugvitssamleg leikstjórn við erfiðar aðstæður
Verkið, sem kynnt er sem tragíkómedía, er ekki mjög frumlegt og ýmislegt kannast áhorfandi við þar úr öðrum verkum um alzheimer svo sem kvikmyndinni „Still Alice“. En margt er þar líka leikvænt, fyndið og alveg er það laust við væmni. Uppbygging þess er skyldari sjónvarpsþætti en leikverki. Örstuttar senur, stöðugt endurlit og nærmyndir. Við lestur var mér reyndar ómögulegt að skilja hvernig hægt væri að setja það upp í Kúlunni. Minnsta sviðinu í Þjóðleikhúsinu þar sem til dæmis innkomur allar eru einungis frá hægri sem er andstætt öllum myndlestri okkar í þessum heimshluta, við lesum frá vinstri til hægri. Þrengslin í Kúlunni einnig þannig að erfitt var að ímynda sér að sú tækni og tæknikunnátta sem Þjóðleikhúsið ræður yfir megni að gera stöðugar skiptingar milli nútíðar og fortíðar, úr breiðmynd í nærmynd, og það jafnvel innan örstuttra atriða, þannig úr garði að ekki orki það klaufalegt. En Pálína Jónsdóttir leikstjóri leysir þetta nánast óyfirstíganlega verk ákaflega vel ásamt myndhöfundinum Filippiu Elísdóttur. Notuð er öll breidd salarins sem svið, til vinstri einhvers konar gróðurhús með skrifborði Guðrúnar, þar er hún er staðsett og þaðan stjórnar hún eðlilegri hreyfingu sýningar. Á bakvegg stórt hvítt tjald , þar er hægt að framkalla skuggamyndir persóna, á það er líka varpað undurfögrum lifandi náttúrumyndum Ástu Jónínu Arnardóttur sem bakgrunni fyrir einstaka senur og einnig mónólógum Guðrúnar sem rituðum texta. Nokkrir stólar og bekkur eru að vísu á sviðinu sem leikarar komast ekki hjá að flytja fram og aftur sem tefur alltaf. En annars tekst að öllu leyti með skemmtilegum ljósabreytingum, snöggum og oft myndrænum skiptingum milli atriða að láta sýninguna fljóta lipurlega og í góðum takti.
Eintóna aðalpersóna
Þó sjúkdómur Guðrúnar, alzheimerinn, hrindi atburðarásinni af stað þá er það allt eins vinátta kvenna sem er hér til umfjöllunar og áhrifin á þær sem eftir lifa, vinkonurnar Hönnu, Maríu og Veru. Sigrún Waage fer með hlutverk Guðrúnar. Hún uppfyllir í útliti algjörlega lýsinguna á Guðrúnu, sem ætíð hefur verið foringinn í hópnum. Hún er falleg, hreyfir sig líka örugglega og fallega og á ýmis sterk augnablik þar sem reynir fyrst og fremst á fas hennar, svo sem undir lokin þegar sjúkdómurinn hefur náð algjörum tökum á henni eða þegar hún í reiðikasti hamrar á svefnherbergisdyr eiginmannsins. En hún skilar því miður ekki blæbrigðum textans, verður of eintóna. Það glittir til dæmis hvergi í þá íróníu og fyndni sem persónan státar sig sjálf af og harka hennar, reiði frá upphafi, veldur því að áhorfandi skilur varla að hinar konurnar hafi tengst henni þessum vináttuböndum.
Sterk aukahlutverk
Kennarinn Hanna er leikinn af Vigdísi Gunnarsdóttur, hún túlkar ákaflega vel þá móðurlegu áhyggjufullu konu með tvö börn og eiginmann í eftirdragi sem með smáborgaralegri hreinskilni sinni stígur oft á tærnar á hinum. María sem býr með fyrrverandi manni Guðrúnar, Steingrími, er yngri en þær hinar. Lára Jóhanna Jónsdóttir losnar í samstarfinu við Pálínu úr því þrönga hólfi sem hún hefur verið föst í í nokkur ár og lifnar og blómstrar í þessu hlutverki sem ung, stillt , kærleiksrík kona. Elva Ósk Ólafsdóttir leikur sálfræðinginn Veru sem ræður illa við að beita þekkingu sinni á eigin tilveru. Hún lyftir ætíð sýningunni með dúndrandi nærveru sinni, ísmeygilegum húmor og örfínum smáum hlutum í leik sem koma oft skemmtilega aftan að áhorfanda. Eina athugasemd verður þó að gera í sambandi við þær stöllur, að aldrei þessu vant tekst Filippiu ekki upp í búningagerð, og mikið er um skipti og búningarnir oft svo áberandi að þeir draga of mikla athygli til sín í örstuttum atriðum. Auk þess sem þær eru allar úr sama menntaða millistéttarhópnum hvað sem perónuleika þeirra annars líður.
Sjaldgæft umfjöllunarefni
Það er sjaldgæft að konurnar sem fylla leikhús landsins eigi þess kost að sjá sýningu þar sem höfundur er kona og 99% af listrænum aðstandendum sýningarinnar eru konur. Hvað þá að verk fjalli um þann mikilvæga þátt í lífi okkar: Vinkonurnar. Það er því ástæða til að arka á sýninguna til að hlæja svolítið, velta því jafnvel fyrir sér hvort dönsk vinkvennamenning standi okkur nærri og fagna því að vel menntaður kvenleikstjóri hafi bæst í hóp hinna fáu menntuðu leikstjóra á landinu. Það má að minnsta kosti lofa því að nóg verði að tala um næst þegar konur hittast.