Á síðustu árum hefur því ítrekað verið spáð að sögur og ljóð á milli harðspjalda muni brátt heyra sögunni til. Rafbækur muni taka yfir. Svo varð ekki. Það er hljóðbókin sem, öllum að óvörum, stendur með pálmann í höndunum. Nýlegar fréttir herma að aukin sala á bókum á Íslandi á árinu skýrist helst af stórbættu aðgengi að bókmenntum og ótt vaxandi framboði á verkum í gegnum áskrift að streymisveitum.
Í þættinum Orð um bækur var fyrir stuttu greint frá því að hið alþjóðlega hljóðbókafyrirtæki Storytel væri nú komið á fullan skrið með eigin framleiðslu bókmenntaverka. Fyrirtækið ræður með öðrum orðum höfunda til að skrifa bækur sem ætlaðar eru til hljóðbókaútgáfu í samræmi við óskir og venjur notenda hljóðbóka bæði hvað innihald og byggingu varðar.
Það er sem sagt ekki lengur tjáning skáldsins og rithöfundarins um umhverfi sitt og sögu eða samtal nýrra texta við bókmenntaarfinn og verk annarra höfunda sem mun móta bókmenntir framtíðarinnar heldur óskir viðskiptavina streymisveita hljóðbóka. Stórar streymisveitur búa yfir miklum upplýsingum um atferli notenda sinna og nú er spurt hvort þessi þróun eigi ekki eftir hafa áhrif á bókmenntir og skáldskap.
Stefán Hjörleifsson framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi vill ekki gera mikið úr þessum áhyggjum. Hér sé fyrst og fremst verið að bregðast við þeim stóra hópi neytenda sem fram að þessu hafi af ýmsum ástæðum lítið lesið á hefðbundnu bókaformi og þyki gott að æfa sig á klæðskerasaumuðum bókmenntum. Með æfingunni skapist hins þörf fyrir metnaðarfyllri bókmenntaverk auk þess sem þjálfaðir lesendur kalli eftir sem áður eftir ögrandi og óvenjulegum verkum í streymisveitum.
Það er sannarlega ekkert nýtt að ný tækni framsetningar hafi áhrif á innihald og byggingu bókmenntaverka. Munnleg hefð krefst annars konar efnismeðferðar en sögur sem eru settar á endanlegt form á skinni og leiðin frá sjálfblekungnum, um ritvélina til tölvunnar hefur visslega haft mótandi áhrif á skriftir og skáldskap. Það er heldur ekki á rithöfundunum Auði Jónsdóttur og Hallgrími Helgasyni að heyra að þau hefðu miklar áhyggjur af skáldskapnum í stafrænu umróti.
„Ég held að þetta eigi bara eftir að fjölga lesendum og fjölga fólki sem styttir sér stundir með því að njóta góðrar sögu,“ segir Auður. „Það eru fleiri og fleiri sem innbyrða fleiri bækur en þeir gerðu áður í gegnum þetta form. Þannig að ég sé ekkert nema gott við þetta.“
„Sjálfsagt verður þetta þróun sem skilar sér á einhvern stað,“ segir Hallgrímur. „Þetta gæti verið meira í átt við Íslendingasögurnar sem eru flestar sprottnar úr munnlegri hefð og voru lesnar upphátt öldum saman og formið þróaðist þannig að menn voru mjög gagnorðir og hugsuðu mikið um að halda söguþræðinum gangandi. Þetta þarf ekki að vera svo nýtt – sjálfsagt mun hefðin takast þarna í hendur við nýja tækni. Við treystum bókmenntunum til að lifa allt af.“