„Það er mjög gefandi að standa á sviði og vera skapandi en það er eitthvað sérstaklega brýnt í uppistandi og ég vona að þetta samfélag haldni áfram að dafna,“ segir Sigurður Arent sem sótti uppistand Rebeccu Lord og Lóu í Tjarnarbíói á dögunum.


Sigurður Arent skrifar:

Ég kveð tengdó í dyrunum og þakka þeim aftur fyrir að passa fyrir mig. Það er föstudagskvöld, það síðasta í maímánuði og ég er á leiðinni í leikhús. Það er bjart og fallegt vorkvöld en kaldhent norðangjólan grípur í stýrið á manni, svo ég set í næsta gír og hraða mér yfir Hljómskálagarðinn með hendur í vösum. Hinum megin við tjörnina blasir það við, Tjarnarbíó, þetta sæta litla leikhús, algjört póstkortakrútt að utan en inn á sviði, og um allt hús reyndar, er alltaf mikið um að vera.

Ég er á leiðinni á uppistand með Lóu Björk Björnsdóttur og Rebeccu Scott Lord. Lóa er nýflutt heim frá Sviss og vinnur á 101FM og Rebecca hefur unnið hjá Þjóðleikhúsinu ásamt sinni eigin listsköpun síðan hún kláraði LHÍ en þær útskrifuðust báðar þaðan í fyrra, Lóa af sviðshöfundabraut en Rebecca úr meistaranámi í sviðslistum. Undanfarið hafa þær verið að koma fram saman ásamt Sölku Gullbrá Þórarinsdóttur undir nafninu Fyndnustu mínar en sýningin þeirra síðustu helgi kallaðist hins vegar The Rebecca and Lóa Show og var þetta víst fyrsta kvöldið af fleirum sem auglýst verða síðar. Anddyrið var fullt af fólki og löng röð á barinn. Ég fer í miðasöluna en kemst þá að því að það er uppselt. Það er stemming í húsinu og ég heyri útundan mér að starfsfólkið er að velta því fyrir sér hvort þau geti tekið fleiri sæti í sölu. Það gengur hins vegar ekki eftir og við sætalausu sessunautar mínir bölvum í hljóði yfir því að hafa ekki bara keypt okkur miða á netinu eins og venjulegt fólk. Maðurinn í miðasölunni segir okkur samt að hinkra og ég fer í röðina á barinn. Þar sem ég stilli mér upp við vegginn með glas í hendi lít ég yfir gestina. Glaðlegir vinahópar skarast saman í þröngu fordyrinu - faðmlög, kossar og kveðjur. Margmennt en ég hlýt að komast inn. Eða hvað? Þegar síðustu bargestirnir eru á leiðinni inn reynast svo eftir allt saman vera sæti fyrir okkur hin miðalausu og við finnum okkar stað meðal áhorfenda.

Og það virðast vera nægir áhorfendur fyrir uppistandara í Reykjavík í dag, þennan ört stækkandi og fjölbreytta hóp, en ég veit persónulega til þess að þetta beinskeytta form hefur laðað til sína nýstúdenta, húsmæður, mannfræðinga, búðareigendur, anarkista, sérfræðinga úr stjórnsýslunni og að því er virðist einhvern úr flestum samfélagshópum. Líka fólk úr sviðslistum en upp til hópa bara skemmtilegt venjulegt fólk sem ákveður að gera alvöru úr gríninu. Uppistand er líka að finna í mörgu öðru, kabaret, veislustjórn og ræðuhöldum en að halda ræðu er meðal þess sem fólk hræðist einna mest, svo þó fæstir geri sér atvinnu úr uppistandinu kemur það sér vel að geta tala fyrir framan fólk og það er ekki verra að geta komið þeim til að hlæja einu sinni eða tvisvar. Hver vill ekki hafa heilan sal í hendi sér - að áheyrendur taki bakföll af hlátrasköllum? Það þarf allavega að hafa eitthvað sérstakt þor en eins og breski grínistinn Jimmy Carr og rithöfundurinn Lucy Greeves segja í bók sinni „Only Joking: What’s So Funny About Making People Laugh?“ þá er uppistand bara þú í fjölmennu herbergi, standandi í öfuga átt, og eina manneskjan sem er ekki að hlæja. Fyrir venjulegt fólk er þetta líkara martröð en draumum um frama og frægð. En uppistand er auðvitað um svo margt annað, pólitík, að deila reynslusögum, ná tengingu við fólk og finna sammannlegan flöt á einhverju sem við fyrstu sýn virðist harla ómerkilegt.

Ég veit ekki hvort frægðin en ennþá hugleikin Lóu og Rebeccu en fyrir ekki svo löngu síðan var Lóa að velta fyrir sér frægðinni á Twitter en hún skrifar þar undir nafninu @lillanlifestyle. Uppistand og samfélagsmiðlar eiga margt sameiginlegt: í fyrsta lagi skiptir fjöldi fylgjenda eða áhorfenda máli en ekki jafn miklu máli og þátttakan (e. engagement), hversu margir hlæja að hvaða bröndurum. Í öðru lagi verður til ákveðinn karakter sem er líkur en þó ekki hinn sami og persónan sem heldur á míkrafóninum eða situr við lyklaborðið og þú ert aldrei viss hvort að skoðunin tilheyrir hinum eða þessum - hvort þetta sé raunveruleg afstaða fólks eða eitthvað sem karakterinn myndi segja eða kannski bara eitthvað til að hrista upp í hlutunum. Það eru gömul sannindi að öllu gríni fylgir einhver alvara en í síðasta lagi er það í uppistandinu jafnt sem á Twitter að auðvitað eru allir að reyna að vera fyndnir. Í tilviki Lóu og Rebeccu heppnaðist það vel, þær voru mjög fyndnar og þær eiga alveg skilið að vera frægar eins og við hin. Þær töluðu um sig sjálfar, instagram, kynlíf, djammið og fleira í tveimur settum sem áttu líka margt sameiginlegt. Til dæmis pælingar um kynjapólitík, frægt fólk og klám.

Rebecca var fyrst á svið og tók við að blanda kokteil og setja saman köku með veglegum skammti af niðursoðnum ávöxtum. Gjörningurinn var sjálfur eins og niðursoðin útgáfa af kokkaþætti með Nigellu Lawson eða álíka sem í dag væru kannski kallaðir matarklám. Kokteillinn sem Rebecca framreiddi var vodka í hvítan Monster, orkudrykk, eitthvað sem ég hef séð mikið talað um en smakkaði í fyrsta sinn þarna í kvöld eftir að Lóa kom seinna með kassa á sviðið og fór að útdeila þeim en ég spurði sessunauta mína, ungt par, mögulega mest miðaldra spurningu ever, hvað þýðir þessi hvíti monster? Af hverju er verið að taka hann svona mikið fyrir. Þau sögðu að þetta væri bara frekar fyndið, það væri ákveðin mótsögn falin í þessu, útlitið gæfi til kynna eitthvað sem er heldur ólíkt innihaldinu. Ég veit ekki með það en innihaldið bragðaðist eins og skógarber frá ævintýralandi, dísætt og freyðandi, og klárar með kröftugum orkudrykkjarkeim. Ég torgaði tæplega helming og í orkudrykkjarvímu fannst mér ég komast nær unga fólkinu í kringum mig. Hjörtu okkar byrjuðu að slá í takt – 120 slög á mínútu.

Í texta um viðburðinn á síðu miðasölunnar stendur að Rebecca og Lóa geti notað barnamiða í strætó en settin tvö snertu einmitt líka bæði á því að vera talað niður til. Rebecca var til dæmis í kaþólskum skóla og Lóa djammar á Kaffibarnum. En hérna eiga þær sviðið og teikna upp aðstæður þar sem þær eru við stjórntaumanna, hvort sem málið snýst um að panta pizzu eða að breyta uppistandinu í kynlífssýningu og láta Góa ríða sér. Já, það voru virkilega fyndnir brandarar inn á milli en án þess að segja of mikið þá náðu þær bara að viðhalda svo góðri stemmingu og hún skiptir auðvitað öllu máli. Kraftmiklir grínistar hér á ferðinni og fáránlega góðar svona á föstudagskvöldi áður en maður fór áfram út í nóttina.

Eftir sýninguna smeygði ég mér á Skúla með hópi sviðslistafólks sem hafði einnig verið í Tjarnarbíó. Það var almenn ánægja með stöllurnar, reyndar voru þetta samnemendur þeirra úr LHÍ en það er deginum ljósara að sviðshöfundar eru að nýta menntun sína í fjölbreytt verkefni. Önnur rík uppspretta af uppistöndurum eru hinir ýmsu spunahópar en það er ótrúlegt hvað báðar senurnar hafa vaxið hratt undanfarin ár. Það er mjög gefandi að standa á sviði og vera skapandi en það er eitthvað sérstaklega brýnt í uppistandi og ég vona að þetta samfélag haldni áfram að dafna. Við þurfum fleiri sem geta haft hátt, eru ófeimin við að segja sína skoðun en hafa líka húmor fyrir hlutunum. Með húmorinn að vopni eru kreðsur og kreddur sneiddar niður og þegar þú gengur út áttu meira en eitthvað sameiginlegt með næstu manneskju, þið deilið einhverju skítugu leyndarmáli frá því að þið hlóguð bæði þarna að njálgsbrandaranum fyrir hlé.