„Hlutum var snúið á hvolf og ég gat hlegið vitandi að mér yrði ekki refsað, ég ekki hýdd opinberlega. Öðrum þræði var því sýningin óður til gagnrýninnar sem ekkert samfélag getur þrifist án.“ María Kristjánsdóttir, leiklistarrýnir Víðsjár, fór að sjá Hans Blæ í Tjarnarbíói.
María Kristjánsdóttir skrifar:
Það er margt sem ekki má orða í okkar snyrtimennskuglæpa samfélagi; margt líka sem við finnum enn ekki orð yfir, og þegar við finnum þau þá eru þau svo ný og framandi að við kunnum ekki að nota þau hvað þá að beygja þau eftir viðteknum málfræðireglum.
Í fyrsta leikverki Eiríks Arnar Norðdahls, Hans Blævi, sem frumsýnt var í Tjarnarbíói í síðustu viku af leikhópnum Óskabörn þjóðarinnar eru nokkur svona orð og noti ég þau eða beygi ekki alltaf rétt í eftirfarandi pistli þá fá vonandi þeir sem kunna það eitthvað út úr heimsku minni, geta hneykslast eða hlegið. Eitt þeirra er nýyrðið gálkn sem merkir kynfæri líkama sem fæðist með bæði kvenkyns og karlkyns slík. Transpíka er víst úrelt hugtak.
Í örstuttu máli þá rekur þessi frásagnarleikur, sem byggður er upp af samtölum, upplýsingum, fréttaskotum og dansi, hvernig barn sem fæðist með gálkn er fyrst gert að vera í kyngervi konunnar, Ilmar. Sú nennir ekki að væla en tekst á við ofbeldi lífsins, fer í leiðréttingaraðgerð og verður hánið Hans Blær. Það, hánið, verður fyrst frægt á vefmiðlum og síðan ofboðslega frægt, athyglissjúkt, einstaklingshyggju tröll í eigin sjónvarpsþætti sem endar með að reka meðferðarheimili til að gera þolendur kynferðisofbeldis klára í þann slag sem lífið er.
Brynja Björnsdóttir, myndhöfundurinn, býr til tvo heima: Expressjónískur, óhlutbundinn og óreglulegur, oddhvassur stjörnurammi umlykur sjálft leiksviðið sem í fjölbreyttri, flottri lýsingu Arnþórs Þórsteinssonar og Kjartans Darra Kjartanssonar, minnir á ramma agressívra sjónvarpsþátta og vísar jafnvel í „sjóið“ mikla, líf okkar hérna í fjölmiðlaneyslunni. Þar dansa í byrjun undir stjórn Höllu Ólafsdóttur allir leikararnir á bak við gegnsæja slæðu klaufalegan dans sem aldrei ætlar að enda, svona rétt kannski til að minna okkur á hvað þetta allt er erfitt og leiðinlegt fyrir flesta. Þar birtist svo síðar stjarnan Hans Blær ætíð í hinu stóra samhengi og hann og önnur atriði sen gerast á hinu stóra sviði eru studd vel af tónlist Ásláks Ingvarssonar. Þar renna einnig yfir rammann upplýsingar sem vinda frásögninni fram og oft einnig sem uppsláttur frétta á sjónvarpsskjá‒ þá texta vinnur Roland Hamiton myndrænt. Frá sviðinu og yfir nokkrar sætaraðir hefur Björg svo byggt tröppur (Björg notaði líka tröppur í Illsku á sínum tíma en þá á sjálfu sviðinu), tröppur upp til okkar áhorfenda sem enda í palli þar sem skapast mikil nálægð í atriðum, þar fáum við nærmyndir af persónum. Enóla Ríkey skapar skemmtilega gráhvíta, nánast persónulausa búninga og þó ekki því sérhver persóna hefur sín einkenni í smáatriðunum, Hans Blær sem leikið er af þremur karlmönnum, Jörundi Ragnarssyni, Kjartani Darra Kristjánssyni og Sveini Ólafi Gunnarssyni er framandgert á táknrænan hátt í búningi sínum. En Sólveig Guðmundsdóttir sem móðirin, blúndukona, og Sara Martì Guðmundsdóttir sem Ilmur eru ekki framandgerðar í leik og búning, sem ég skil ekki alveg. Á naturalismi heima í þessari fantasíu? Maður þarf að vísu ekki að skilja alltaf allt, en oftast í leikhúsi og einkum þegar verið er að flytja texta höfundar eins og Eiríks Arnar þá leitar áhorfandi merkingar. Sýningin í höndum leikstjórans Vignis Rafns Valþórssonar virðist á ýmsan hátt vera enn í vinnslu, leikurinn ekki falla alveg eða áreynslulaust að gefnu formi, texti einfaldaður, það nægir til dæmis ekki að láta þrjá leikara leika Hans Blæ til að gera persónuna margræða, en margt er ákaflega skemmtilegt, kemur á óvart.
Og það sem ég hló á sýningunni því að skemmtan mikil er texti Eiríks Arnars, sem á sinn beitta íróníska hátt lætur Ilmi og Hans Blæ fara út fyrir öll viðtekin mörk í siðferðilegri hugsun samtímans. Ég hló sem sagt ekki að heldur með skrýmsli, sem líkt og margir sem eru aðalpersónur í skammlífum æsifregnum fjölmiðla átti við fyrstu sýn ekkert erindi annað við mig en sjálft sig. Ég hló með fullkominni andstæðu hins sífellda harmagráts yfir vonsku annarra‒ eða réttara sagt með líkamningu illskunnar og oflætisins. En grét ekki örlög þess því auðvitað líkt og í grískum harmleik fylgjast oflæti og dauði að.
Ég hló, alla leiðina heim. Svo daginn eftir leitar á af hverju það var léttir að hlæja? Auðvitað fyrst og fremst af því að þarna var vanahugsun ögrað. Þar voru hlutir gagnrýndir sem ekki má gagnrýna samkvæmt viðteknum reglum. Hlutum var snúið á hvolf og ég gat hlegið vitandi að mér yrði ekki refsað, ég ekki hýdd opinberlega. Öðrum þræði var því sýningin óður til gagnrýninnar sem ekkert samfélag getur þrifist án. Marx kallaði löngum eftir „vægðarlausri gagnrýni á allt sem til er“.
Og jafn mikilvægt er að geta hlegið að sjálfum okkur. Persónur sem eru kynsegins hafa áður verið í aðalhlutverki í íslensku leikverki en aldrei áður sem írónískt tákn sem vísar í allar áttir, jafnvel inn á sjálft leiksviðið. Eða er kannski leikari ekki bara kynsegins, stöðugt að klæða sig í föt einhverrar persónu sem hann er ekki og vill stundum alls ekki vera! Og við hin erum við alltaf sátt við þau kyngervi eða önnur gervi sem okkur hafa verið búin og valin eða sjálf höfum valið? Alla vega þá framandgerir hánið hér skemmtilega hvernig stjörnur er búnar til í geggjuðum darraðadansi upplýsinga og fjölmiðlaveldis neyslusamfélagsins. Hvernig þær rísa og falla.
Þessa sýningu má kalla nokkurs konar fjörutíu blaðsíðna trailer fyrir skáldsöguna Hans Blæ sem fljótlega verður gefin út og er fjögurhundruð síður. Ég ráðlegg öllum sem stundum finna til kvíða yfir vaxandi púritanisma í samfélaginu og amerísk ættaðri dómhörku að drífa sig í Tjarnarbíó til að sjá hann.