Í árdaga Hinsegin daga var ekki eining innan hinsegin samfélagsins um að halda ætti Gleðigöngu í borginni. „Fólk hélt að við myndum líta út eins og fífl,“ segir Heimir Már Pétursson fyrrverandi framkvæmdastjóri Hinsegin daga.
Hinsegin helgi var fyrst haldin í Reykjavík árið 1999 í tilefni af því að 30 ár voru frá uppreisninni í Stonewall. Gleðigangan fór svo sína fyrstu ferð niður Laugaveginn ári síðar. Fjallað er um upphaf Hinsegin daga í heimildarþáttum Hrafnhildar Gunnarsdóttur, Svona fólk, sem sýndir verða á RÚV í haust.
„Aðrir höfðu frumkvæði að því að hafa samkomu á Ingólfstorgi í júní 1999,“ segir Heimir Már Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hinsegin daga. „Það var ekki mikið auglýst annars staðar en innan „gay“ kreðsunnar. Engu að síður komu 1.500 manns og meirihlutinn af þeim var „straight“.“ Þar var fræjum Gleðigöngunnar sáð. Nokkrum dögum síðar hafði Heimir samband við Veturliða Guðnason. Ákveðið var að endurtaka leikinn og þá með göngu niður Laugaveg.
Það leist hins vegar ekki öllum vel á hugmyndina. „Það voru ekkert allir á því að það ætti að hafa göngu. Fólk hélt að við myndum líta út eins og fífl; við yrðum sárafá töltandi niður Laugaveginn og það yrði bara hlegið að okkur.“
Þorvaldur Kristinsson, fyrrverandi formaður Samtakanna '78, segir sömu sögu. „Í hópnum voru manneskjur sem töldu það öruggt að við yrðum okkur til skammar. Enn og aftur yrðum við skotspónn þjóðarinnar okkur til háðungar. Úrtöluraddirnar voru nægar.“
En af göngunni varð og þegar hún fór af stað blöstu við 12.000 manns sem fylgdust með. Stundin reyndist tilfinningaþrungin. „Hjartað í mér stoppaði í smástund og tárin spýttust fram,“ segir Heimir Már.
Páll Óskar Hjálmtýsson var með í þessari fyrstu Gleðigöngu á Íslandi og segir hann tímamótin hafa verið ljúfsár. „Andlitið á mér datt niður en þetta var líka svona út úr líkamanum lífsreynsla. Vegna alls þess sem á undan var gengið. Mér var sérstaklega hugsað til þeirra sem höfðu dáið og voru ekki þarna á svæðinu. Það var akkúrat þá sem ég dró djúpt andann og áttaði mig á því að þetta var þess virði.“
Gleðigangan, sem fer fram laugardaginn 17. ágúst, hefur verið árviss viðburður síðan. Hún hefur stækkað með ári hverju og er í dag ein fjölsóttasta hátíð á Íslandi. Sýningar á heimildarþáttunum Svona fólk hefjast á RÚV 29. september.