Tvíeykið í Hipsumhaps hefur sannarlega skotist upp á stjörnuhimininn á árinu sem er að líða en þeir tóku sig til og heiðruðu gesti á aðventugleði Rásar 2 með því að flytja glænýtt jólalag.

Hljómsveitin Hipsumhaps sendi frá sér fyrsta jólalag fyrir þessi jólin en lagið er sérstaklega ort til þeirra landsmanna sem þjást af D vítamínskorti og kvefi yfir hátíðirnar. Lagið nefnist einfaldlega Veikur á jólunum og er melankólískt lag um þá óheppni, sem flestir hafa einhverntíma lent í, að verja jólunum í bælinu, vera sveittur í lófunum og finna ekkert bragð af desertinum.

Aðventugleði Rásar 2 var sérstaklega vegleg í ár og var hún í beinni frá 9-16 úr Útvarpshúsinu og Akureyri á Rás 2, auk þess sem streymt var frá viðburðinum í mynd allan daginn á RÚV.is.