Fyrsta fræðiritið um sögu hinsegin fólks á Íslandi er að koma út: Svo veistu að þú varst ekki hér. Bókin hefur að geyma ritrýndar greinar um ýmislegt sem tengist sögu hinsegin fólks á Íslandi. Ritstjórar eru Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Auk þeirra hafa þau Þorsteinn Vilhjálmsson, Þorvaldur Kristinsson og Kristín Svava Tómasdóttir ritað greinar sem birtar eru í bókinni, sem Sögufélag gefur út.

Það er óhætt að segja að um sé að ræða tímamóta verk í íslenskri sagnfræði. Saga hinsegin fólks hefur legið í þagnargildi að verulegu leyti - legið inni í skápnum. „Það er ekki talað um það sem er skammarlegt. Ef um það er talað, þá er það á neikvæðum nótum frekar en jákvæðum. Af þessu leiðir að það var frekar seint sem farið var að skrifa sögu þessa þjóðfélagshóps," sagði Ásta Kristín Benediktsdóttir á Morgunvaktinni á Rás 1.

Hún segir að það hafi eiginlega ekki verið fyrr en á áttunda áratugnum að farið var að skrifa sögu hinsegin fólks í heiminum - enn síðar á Íslandi.  „Þetta er fyrsta fræðilega atlagan að þessari sögu." Hún segir að aðstandendur bókarinnar vonist til að hún skapi umræður.