Hrafnhildur Arnardóttir - Shoplifter - opnaði sýninguna Chromo Sapiens á Feneyjartvíæringnum fyrir skemmstu. Sýningin er líklega metnaðarfyllsta verk Hrafnhildar til þessa og minnir einna helst að ganga inn í eins konar ofurnáttúru eða renna ofan magann á litríkum tuskubangsa. Verkið verður sýnt á Íslandi í janúar.

Í sýningarrýminu Spazio Punch á eyjuni Guidecca í Feneyjum hefur Hrafnhildur komið fyrir þrískiptum helli sem búinn er til úr hári en undir hljómar hljóðmynd eftir Ham. Hrafnhildur hefur vakið athygli fyrir stóra hárskúlptúra en þetta er í fyrsta sinn sem hún býr beinlínis til rými úr hári. 

„Verkin hafa alltaf verið að stækka og stækka. Mig hefur alltaf langað til þess að geta fyllt upp í sjónræna heild áhorfandans, þannig að þú sjáir ekkert annað en þennan efnivið og þessa liti,“ segir Hrafnhildur. „Það er eiginlega lán í óláni að hef ekki getað gert það fyrr en akkúrat núna á Feneyjatvíæringnum, þar sem einmitt er hægt að taka hlutina alla leið.“

Ýktasta mynd af náttúru sem hún gat búið til

Hún lýsir verkinu sem ofurnáttúru. „Þetta er ýktasta mynd af náttúru sem ég get búið til held ég. Ég sé þetta í rauninni fyrir mér sem expressjónískt landslagsmálverk. Verkið heitir Chromo sapiens, ég er í rauninni að nefna áhorfandann  meira heldur en verkið sjálft,“ en chromo merkir litróf en sapiens viska. 

Fyrsti hellirinn heitir Primal opus og er tileinkaður hljómsveitinni HAM sem gerði hljóðmyndina fyrir verkið. Annar hellirinn nefnist Astral gloria og er óður til litadýrðar en þriðji hellirinn nefnist Opium natura. „Þetta eru litir sem ég trúi á að hafi ofsalega góð áhrif á mann, bara eins og litameðferð fyrir sálina. Ég lít svo á að þetta verk hafi einhverja náttúrulega alsælu í för með sér.“

Verk sem umfaðmar áhorfandann

Birta Guðjónsdóttir sýningarstjóri bendir á að þótt Hrafnhildur hafi áður unnið með arkitektúr bygginga, eins og safna, hafi hún aldrei áður skapað sjálfstætt rými úr hári eins og nú.

„Það er svolítið nýtt, við bjóðum gestum að ganga eiginlega eins og inn í magann á uppáhaldsbangsanum sínum frá æsku,“ grínast hún. „Aðallega á þeim forsendum að verkið svona umfaðmar þig. Það er eiginlega ekki hægt að ganga inn í verkin hennar, innsetningarnar, án þess að snerta þetta hár og leyfa hárinu að snerta sig.“

HAM í leit að ögrandi áskorun

Hrafnhildur fékk HAM til liðs við sig því hún segir lengi hafa hlustað á þá þegar hún vinnur að verkum sínum. Hún segir ákveðinn frumkraft í tónlist þeirra „HAM er búið að vera hljóðmyndin í stúdíóinu mínu í fjölda ára, þannig að öll mín verk er hlaðin energíi frá HAM. Ég vildi fá þá til þess að gera tónlistina, eins og þetta sé bara garnagaul í jörðinni.“ 

Sigurjón Kjartansson og Óttarr Proppé, liðsmenn HAM, segjast hafa tekið því fagnandi þegar Hrafnhildur bað þá um að gera hljóðmyndina. „Við vorum nú eiginlega búnir að vera svo lengi rokkhljómsveit sem var alltaf á tónleikum og það var bara ágætt að prófa eitthvað nýtt, leita að meira ögrandi verkefnum í listinni,“ segir Sigurjón.

„Við vorum kannski að verða ballhljómsveit rokksins einhvern veginn,“ bætir Óttarr við. „Þannig að þetta var bara fögnuður hjá okkur, að fá að gera eitthvað allt allt öðruvísi.“ Þótt andi HAM svífi ótvírætt yfir vötnum er tónlistin gjörólík þeirri sem hljómsveitin hefur spilað til þessa. „Þetta er pínulítið eins og kvikmyndatónlist við það að labba í gegnum hellana hennar Hrafnhildar,“ segir Sigurjón. „Það má eiginlega segja að við höfum byrjað á því að að semja handritið að þessari bíómynd, eða þessu leikriti,“ segir Óttarr.

Þeir fengu Skúla Sverrisson tónlistarmann til að vinna tónlistina með sér og stýra upptökum. „Hann kenndi okkur ákveðnar aðferðir sem við höfðum í sjálfu sér ekki mikið pælt í. Við erum vanir því að spila mjög taktfasta rokkmúsík þar sem bítið er stöðugt og dálítið viðvarandi. Það á ekki við í þessu tilviki, þetta er svona tímaleysi, þannig að þetta er miklu meira flæði. Við gerðum það líka viljandi, að við undirbjuggum verkin í raun og veru með því spila okkur inn í ástand, létum verkin spila sig inni í stúdíóinu, sem gekk auðvitað mjög vel.“

Chromo Sapiens á Íslandi í janúar

Þetta er í annað sinn sem íslenski skálinn er til húsa á eyjunni Guidecca í Feneyjum. Skálinn er fjarri aðalsýningarsvæðinu og ekki í alfaraleið, en Dorothée Kirch, starfandi stjórnarformaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, segir staðsetninguna líka hafa kosti. 

„Þessir jaðarstaðir vilja oft vekja athygli og verkið hennar Shoplifter er það líflegt og skemmtilegt og litríkt að það spyrst út og fólk er mjög spennt. Við höfum fengið mjög góða pressu, fólk vill koma og sjá þetta og við erum alveg í skýjunum yfir þessu.“

Feneyjartvíæringurinn stendur fram í nóvember en þeir sem ekki komast út geta séð verkið á Íslandi á nýju ári, eins og Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur upplýsti á opnuninni. „Við gengum til samstarfs við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar um það að hýsa verkið þegar því lýkur hér. Við ráðgerum að sýna verkið í janúar, eða að byrja að sýna það þá.“

Fjallað var um framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.