Það er sá tími ársins þegar allt fer á hreyfingu. Leysingar á fjöllum, frjókorn fljúga um loftið og nýir fuglar koma til landsins. Þetta er líka sá tími þegar manneskjan hressist, finnur sér ný verkefni og leggur línurnar fyrir nánustu framtíð.


Tómas Ævar Ólafsson skrifar:

Flest störf eru auglýst á vorin og mig grunar að mörg okkar hafi um þessar mundir opnað gamla góða ferilskráarskjalið í tölvunni og hugað að uppfærslu. Alla vega opnaði ég gamla word-skjalið mitt í þessari viku og var nokkuð brugðið þegar ég sá að ferilskráin teygði sig yfir fjórar blaðsíður og var allt, allt, allt of ítarleg. Ég byrjaði að henda út upplýsingum, stytta setningar og bæta inn í hana vinnustöðum og verkefnum. En í því ferli komst ég ekki hjá því að velta fyrir mér hvernig ferilskrár eigi almennt líta út. Hvað þarf að koma fram? Hvað þarf ekki að koma fram? Skiptir leturgerðin máli? Er sniðugt að nota fleiri liti en svartan og hvítan? Á maður að nota slagorð í stað setninga? O.s.frv. O.s.frv. 

Ég fór á stúfana og hafði upp á nokkrum manneskjum sem ég tel að lumi á sérstaklega sterkum ferilskrám og þekki umsóknarferlið ágætlega. Það voru þau Halla Guðrún Jónsdóttir, Snorri Rafn Hallsson og Elín Inga Bragadóttir. Ég bauð þeim í kaffi og fékk að spyrja þau nánar út í ferilskráargerð með upptökutækið í gangi. Og hér á eftir fylgja nokkur ráð sem mér voru gefin.

Ferilskrá sem auglýsing

Halla Guðrún segir mikilvægast að vera meðvitaður um það hverju sinni hver sé að fara að lesa ferilskrána. „Þetta er svolítil markaðsfræði, það þarf að greina markhópinn og gefa honum það sem hann vill. Ef maður er til dæmis að sækja um starf með áherslu á skipulagshæfni þá dregur maður þá eiginleika fram.“ Hún segir mikilvægt að átta sig á því að ferilskrá er í raun auglýsing.

„Ferilskrá virðist fyrst um sinn hlutlægt fyrirbæri. Þetta er skrá yfir það sem þú hefur gert á þínum ferli, nám, störf, félagsstörf,“ segir Snorri Rafn. „Við fyrstu sýn er þetta eins og námsferill þar sem fram kemur hvaða námskeið þú tókst og hvaða einkunnir þú fékkst. Þegar maður hins vegar fer að skoða þetta betur kemur í ljós að þetta er miklu frekar skáldskapur. Þú þarft að þýða þetta yfir á tungumál sölumennskunnar, sem er lygi, nema þarna ertu að vinna með staðreyndir. Þú varst vissulega að vinna á þessum tiltekna stað svo það er erfitt að segja að þetta sé hrein lygi en ég held þetta sé skáldskapur að því leyti að þú þarft að ramma hlutina að miklu leyti inn. Þú getur sleppt því að segja frá hinu og þessu og þú getur ýkt aðeins önnur atriði á móti.“

Meðvirknisferilskrá

Elín Inga Bragadóttir viðurkennir að vera aðeins meðvirk þegar hún semur ferilskrár sínar. „Ferilskráin er auðvitað breytileg eftir því hvar sótt er um. Það er ekki það að ég til dæmis ljúgi í minni ferilskrá, en það er hægt að leggja misríka áherslu á það sem maður hefur gert.  Ég held ég hugsi ferilskrána svolítið út frá þeim stöðum þar sem mig langar að fá verkefni, jafnvel meira en út frá sjálfri mér.“

„Mér finnst nauðsynlegt í fyrsta lagi að ferilskráin eigi við. Bæði í útliti og náttúrlega upplýsingum. Í fyrsta lagi er mikilvægt að hún sé falleg og ánægjuleg að horfa á,“ segir Halla. „Ég held að það sem helst skipti máli sé að grípa augað strax og að hún sé áhugaverð og fólk vilji lesa upplýsingarnar. Svo skiptir máli að hún sé uppsett mjög skipulega þannig að það sem er feitletrað eða þar sem stafirnir eru stærri, þar sé verið að draga fram algjörlega aðalatriðin til að auðvelda lesendum að draga fram aðalatriðin sem skipta máli fyrir þetta tiltekna starf.“

Snorri segist miða við að hafa ferilskrána stílhreina. „Svarthvítt því ég er svo svarthvítur og svo er mikilvægt að það sé áberandi hvar maður vann og hvað maður gerði þar. Það má ekki vera neitt vandamál fyrir þann sem les ferilskrána að finna þær upplýsingar sem hann vill,“ segir hann. „Ég held að það sé reyndar að því leyti eingöngu sem ég miða ferilskrána að lesandanum. Ástæðan fyrir því að ég er ekki í betra starfi í dag er að ég hugsa þetta allt of mikið út frá mér og því sem ég vil segja, ekki hvað sá sem les vill heyra.“

Sannleikanum hagrætt

„Ég dreg fram það sem ég er stoltastur af. Það eru ekki störf sem ég hef unnið fyrir pening eða stöður sem ég hef gegnt, það er helst sjálfboðaliðastarf þar sem mér tekst samt að titla mig sem eitthvað meira en ég var. Ég var með svona lítið hlaðvarp en gat kallað mig hlaðvarpsframleiðanda og jafnvel yfirstjórnanda. Ég var það náttúrulega ekkert en það skiptir engu máli það veit það enginn og það getur enginn komist að því heldur. Með ferilskránni segjum við bara það sem við viljum og vonum að enginn komist að hinu sanna,“ bætir Snorri við.

Áhugamál skipta ekki máli

„Ég las tíst frá manneskju sem er atvinnurekandi sem sagði að sér fyndist pirrandi að lesa að fólk hefði áhuga á hinu og þessu, að það skipti engu máli. Ferilskráin mín núna segir bara hvaða menntun ég hef og hvaða stöðum ég hef unnið á. Stundum sendi ég kynningabréf í tölvupóstinum sé þess óskað,“ segir Elín að lokum.

Já, ferilskrár koma í öllum stærðum og gerðum, þær koma í mörgum litum en geta líka verið svarthvítar. Þær klæða staðreyndir í skáldskap og fela jafnvel upplýsingar fyrir lesanda. Og það er greinilega kominn tími til að ég hendi mínu fjögurra blaðsíðna word-flykki í ruslið og búi til nýja ferilskrá. En mig langar að halda þessu ævintýri aðeins áfram. Með ferilskrá skal yfirleitt fylgja svokallað kynningarbréf. Meira um það í næstu viku.