Una Margrét Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona og rithöfundur, segir frá uppvextinum, tónlistar- og revíuáhuganum, eineltinu sem hún varð fyrir í grunnskóla og áráttu- og þráhyggjuröskuninni sem hún greindist með þegar hún var tvítug.
Fyrra bindi bókarinnar Gullöld revíunnar Revíur á Íslandi 1880–2015 kom út fyrir jólin. Þar fjallar Una Margrét Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1 og rithöfundur, um leikhúsformið revíur. Hún varð forfallinn aðdáandi aðeins tíu ára gömul þegar hún sá sjónvarpsþátt um revíur. Revían er gamanleikrit sem fjallar um samtímann og eru þjóðþekktir einstaklingar gjarnan nafngreindir. Þó gullöld revíunnar sé líklegast liðin má greina arfleifð hennar víða að finna í nútíma afþreygingu á Íslandi. Til dæmis er áramótaskaupið sem landsmenn fylgjast með ár hvert náskylt revíu og Spaugstofan sem sýnd var í áratugi var ansi revíuleg eða Unu sögn. Í bókunum tekur Una Margrét saman þær revíur sem settar hafa verið á svið hér á landi, segir frá helstu verkum, söngvum sem í þeim hljómuðu og leikurum sem léku í revíum á Íslandi. Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddi við Unu Margréti í Sunnudagssögum á Rás 2.
Eineltið í Vesturbæjarskóla
Foreldrar Unu Margrétar eru Jón Óskar rithöfundur og Kristín Jónsdóttir myndlistarmaður frá Munkaþverá í Eyjafirði. Hún er einkabarn og fékk því að eigin sögn alla athygli heimsins og naut þess að mestu leyti að baða sig í henni. Foreldrar hennar voru mikið heimavinnandi og Unu þótti ekki ónýtt að hafa þau alltaf hjá sér en viðurkennir að hún gat orðið einmana því hún saknaði þess að hafa félaga til að leika sér við heima og dauðlangaði því í lítið systkini. Það varð snemma ljóst að hún var fljót að læra enda höfðu foreldrar hennar tíma til að kenna henni ýmislegt. Hún var aðeins þriggja ára þegar hún lærði að lesa og þegar hún var sex ára byrjaði faðir hennar að kenna henni á píanó og sem unglingur gat hún leikið píanóvalsa Chopins.
Úr Vesturbæjarskólanum á hún bæði góðar og slæmar minningar. Skólinn var yndislegur og henni líkaði vel við kennarana en fljótlega byrjuðu skólasystur hennar að leggja hana í einelti. „Ég var sérvitur og það bjó innra með mér feimni og óöryggi. Þetta tvennt saman leiðir oft að því að barn er lagt í einelti,“ segir hún og svarar því aðspurð hvort hún hafi fyrirgefið gerendum sínum að þær hafi aldrei beðið um neina slíka.
Fannst tískan ljót og nýjustu popplögin leiðinleg
Hún fann oft fyrir kvíða. Hún kveið því að sem koma skyldi þann daginn í skólanum enda var allt notað gegn henni. Hún átti þó sínar vinkonur sem björguðu henni frá því að skaddast illa af eineltinu auk þess sem sjálfsöryggið sem hún var alltaf haldin kom að góðum notum. „Þrátt fyrir feimnina og óöryggið hvarflaði aldrei að mér að það væri neitt að mér. Mér þótti stelpurnar vera fífl og ég fyrirleit þær,“ segir hún.
Unu var meðal annars strítt fyrir að klæða sig ekki samkvæmt nýjustu tísku og hlusta ekki á réttu tónlistina en hún reyndi aldrei að breyta sjálfri sér til að þóknast stelpunum. „Ég var sérvitur, fannst tískan ljót og nýjustu popplögin leiðinleg og ég lét þessa skoðun í ljós,“ segir hún. Gagnfræðiskólinn hófst svo þegar Una var aðeins 12 ára enda var hún ári á undan í skóla og þá losnaði hún undan eineltinu. Hún valdi að fara í Kvennaskólann þegar gerendurnir fóru allir í Hagaskóla og þá átti hún frábær ár í skóla.
Rappaði sig í gegnum algebruna
Þegar Una var tólf ára fann hún La Traviata í plötusafni föður síns en plötuna prýddi mynd af konu í fallegum kjól og vakti hún því forvitni Unu. Hún setti plötuna á fóninn og varð um leið staðráðin í að gerast óperusöngkona. „Þarna fór tónlistin að opnast. Ég hafði vanist klassískri tónlist en ég hafði ekki áður uppgötvað hvernig væri hægt að njóta tónlistar og heillast af henni,“ segir hún.
Eftir gagnfræðiskóla hóf hún nám í Menntaskólanum í Reykjavík í fornmáladeild þar sem hún naut sín við að læra latínu, grísku og fornfræði. Hún naut þess hins vegar síður að læra eðlisfræði og stærðfræði. Hún átti í basli með að muna skilgreiningar þegar hún var að læra fyrir eitt prófið og brá þá á það ráð að semja upp úr þeim rapptexta. „Fall F er sagt hafa markleiðu K í X er jafnt og A. Þú sérð hvað hún hefur virkað, ég man þetta ennþá,“ segir hún og hlær.
Hún byrjaði í söngnámi og þrátt fyrir að hafa lengi verið staðráðin í að verða óperusöngkona varð franska fyrir valinu í háskóla en hún lærði einnig tónlist í París þar sem hún dvaldi í hálft ár. Þegar hún sá auglýst eftir dagskrárgerðarmanni á tónlistardeild Ríkisútvarpsins ákvað hún að sækja umm þó henni dytti ekki í hug að hún yrði ráðin. Skemmst er frá því að segja að Una Margrét hefur starfað hjá Ríkisútvarpinu nánast óslitið síðan.
Hélt hún væri haldin illum anda
Þegar Una var yngri var hún mjög gjörn á að fá kæki. Um tíma var hún til dæmis alltaf að syngja sömu tvo tónana sem hún endurtók oft enda segist hún hafa fundið fyrir þörf til að syngja þá, hún réði ekki við sig. „Svo voru fleiri kækir sem ekki var heppilegt að hafa hvað eineltið varðar,“ segir hún.
Þegar hún varð aðeins eldri fór fleira í þessum dúr að gerast. „Það fóru að hellast yfir mig óviðkunnanlegar hugsanir sem mér leið illa yfir. Þetta hafði líka gerst þegar ég var lítil og þá var þetta guðlast, eða hugsanir sem mér fannst vera guðlast,“ segir hún. Una var trúuð á þessum tíma og fannst skelfilegt að geta ekki losað sig við hugsanirnar. „Svo fór ég í kirkju og það var sagt frá því þegar Jesú rak út illa anda og ég hugsaði já, ég er haldin illum anda,“ segir hún sposk.
Gat ekki útskýrt hvers vegna hún þurfti að snerta hluti
Þó Una vissi vel að hlutirnir heima hjá henni, mublurnar í stofunni og fleira, væru ekki lifandi lék hún stundum að þeir væru það. Svo fór að henni fór að finnast þeir mæna á sig. „Mér fór að finnast hlutir horfa á mig og biðja mig að snerta sig. Ég snerti hlutinn og þá horfir annar hlutur á mig og biður mig að snerta sig,“ rifjar hún upp. Hún gat ekki látið það vera að verða við bóninni svo að þrátt fyrir að langa til að hætta því þá snerti hún hlutina einn af öðrum. Á tímabili gekk hún reglulega hringi í stofunni og snerti hluti og vakti þessi hegðun furðu hjá foreldrum hennar. „Pabbi og mamma skildu ekkert og báðu mig að hætta þessu en ég gat ekki útskýrt að ég gæti það ekki.“
Þarna er að myndast hjá Unu það sem kallað er áráttuhegðun. „Þráhyggja er það sem gagntekur mann og það er eitthvað sem maður þolir illa. Einu sinni var það atriði úr hryllingsmynd sem gagntók mig,“ rifjar hún upp.
Hugmyndin um að fara til geðlæknis vitleysa
Greininguna fær Una Margrét ekki fyrr en hún er um tvítugt en þá hafði hún um hríð glímt við þrálátan höfuðverk. Hún fór til taugalæknis og útskýrði kvillann en var alls ekki ánægð með svarið sem hún fékk. „Hann sagði: Við getum látið skoða þetta og tekið myndir en miðað við lýsingarnar grunar mig að þetta sé andlegt og það sé best að fara til geðlæknis.“ Myndir voru teknar og höfuðið á Unu Margréti var skoðað en ekkert fannst að. „Hann ráðleggur mér í kjölfarið aftur að fara til geðlæknis og ég hugsa þetta er nú góður brandari.“
Hún hitti vinkonur sínar í matarboði skömmu síðar og var staðráðin í að segja við þær í háði: „Hafið þið heyrt það nýjasta? Ég er orðin geðsjúklingur!“ En hún ákvað þó eftir smá umhugsun að segja ekki neitt, hvorki í gríni né alvöru heldur að halda þessu leyndu fyrir öllum í kringum sig og að ræða ekki við neina geðlækna í bili.
Hafði sjaldan heyrt jafn dæmigerða lýsingu á þráhyggju
Svo líður hræðilegasta sumar sem Una Margrét hefur upplifað enda ágerðist höfuðverkurinn og hún botnaði ekkert í því hvað væri að koma fyrir sig. Eftir smá heilabrot fór hún hinsvegar að átta sig á ákveðnu mynstri og það rann hálfpartinn upp fyrir henni ljós þegar hún rifjaði upp með sjálfri sér þessa þráhyggju hennar fyrir að snerta hluti og hugsanirnar sem sóttu á hana. Hún ákvað að það væri kannski ekki svo vitlaust að tala við geðlækni eftir allt saman. „Ég fór til geðlæknis um haustið sem sagði við mig: Þetta er skólabókardæmi um þráhyggju, ég hef sjaldan heyrt svona dæmigerða lýsingu.“
Læknirinn vildi setja hana á lyf en foreldrar hennar voru smeykir við mögulegar aukaverkanir svo úr varð að hún hætti við það. Hún gerði því ekkert fyrr en hugsanirnar um hryllingsatriðið fóru aftur að sækja á hana aftur og hún áttaði sig á að hún yrði að gera eitthvað til þess að losna við þráhyggjuna. „Það er ótrúlegt hvað þetta veldur hræðilegri vanlíðan. Ég hugsaði hvað gengur að mér, af hverju læt ég þetta eyðileggja lífið? Ég er ung og líkamlega hraust og allt ætti að vera í lukkunnar velstandi.“
Himnaríki er að vera ekki í þráhyggjukasti
Ári eftir að Una Margrét gifti sig fékk hún svo slæmt kast að hún varð að gera hlé á vinnunni og þá samþykkti hún að prófa þetta lyf og loks fór þráhyggjan að lagast. Hún er sannfærð um að lyfið hjálpi henni mikið enn í dag þó hún finni enn fyrir þráhyggju daglega. „Ég fæ nokkur köst á dag. Yfirleitt standa þau ekki í nema nokkrar mínútur og þá fer ég í gegnum áráttuferli þar sem ég ýti hugsununum frá,“ segir hún.
Una segir að það sé mikilvægt að tala um þessa hluti og að í dag sé það auðveldara en áður fyrr. „Maður sá geðsjúklinga fyrir sér sem fólk í æðiskasti að ráðast á einhvern en það er bara fáfræði og fordómar,“ segir hún ákveðin. „Það eina góða við að kynnast þeirri vanlíðan sem svona sjúkdómur hefur í för með sér er að maður skilur betur vanlíðan annarra sem glíma við andlega erfiðleika. Maður kann betur að meta það þegar maður er ekki haldinn þessu. Himnaríki er að vera ekki í þráhyggjukasti.“
Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddi við Unu Margréti Jónsdóttur í Sunnudagssögum.