Kvikmyndin La montaña sagrada, eða Hið helga fell, eftir chileska leikstjórann Alejandro Jodorowsky verður sýnd í tvígang í BíóParadís um helgina. Allur ágóði af sýningunum rennur beint til Jodorowskys sjálfs en hann vinnur nú að sinni síðustu mynd í hárri elli.

Af hverju er ég að gera kvikmynd?

Leiðin liggur til Santiago í Chile. Á skjánum birtist gráskeggjaður maður, býsna unglegur, miðað við það að hann er fæddur árið 1929. Hann segist hafa verið á fótum síðan klukkan sex í morgun, að hann hafi verið að taka kvikmynd, með her manna. Hann segir að sig verki í allan líkamann,  raunar vera að niðurlotum kominn, og að hann bókstaflega verði að tala við okkur. Kvikmyndagerð þarfnast her manna sem leggja líf og sál sína í verkið, segir hann. Ég hef eytt deginum í algleymi sköpunargleðinnar, og það er þreytandi. Hann bætir við: ég er 86 ára gamall, og spyr, af hverju er ég að gera kvikmynd? Mig verkjar í fæturnar, mjaðmirnar og handleggina, og hálsinn líka, allur líkaminn er undirlagður. En, segir hann, hvílík hamingja að vera loksins að gera kvikmynd sem læknar. Ekki sjúkt verk sem sýnir einvörðungu eyðileggingu og niðurrif, innihaldslausa bardaga og sýndarveruleika, fólk sem kann ekki að elska fólk og fólk sem heldur að ástin sé ekkert annað en léttvægur rómantískur leikur. Já hvílík hamingja að vera að gera mynd sem fjallar ekki um peninga. Hann beinir spjótum sínum að Hollywood sem hann segir að hafi tekið allan heiminn í gíslingu. Tekið yfir bíósalina, leikhúsin, auglýsingarnar og dreifinguna. Og hann spyr: hvað er eiginlega eftir fyrir mann eins og mig? Gamlan mann eins og mig sem stendur enn í þeirri trú að kvikmyndagerð sé listgrein. Og hann svarar: Ekki neitt.

 

Listin á að breyta manninum

Alejandro Jodorowsky fæddist eins og áður segir árið 1929, en lítur alls ekki út fyrir að vera svo gamall, hann er úkraínskur gyðingur, fæddur í Chile, og hefur gert fjölmargar kvikmyndir um ævina, hann er eins konar goðsögn. Nú vinnur Jodorowsky að sinni síðustu mynd. Hún heitir Endlaus ljóðlist, og ástæðan fyrir því að hann ávarpar heiminn að loknum erfiðum vinnudegi og af slíkum ákafa nú, er sú að hann vantar peninga til að fjármagna verkið. Það er ekkert eftir fyrir mann eins og hann. Bandarískar kvikmyndir hafa valtað yfir heiminn, segir hann, breytt kvikmyndalistinni í innihaldslitla afþreyingu sem varir í einn og hálfan tíma, og breytir engu í lífi þeirra sem myndirnar sjá.

Svartir sunnudagar

Hópur aðdáenda Jodorowskys hefur nú tekið sig saman með veglegum stuðningi frá BíóParadís til að sýna meistaraverk Jodorowkys, og hans frægustu kvikmynd, La montaña sagrada  eða Hið helga fell, fantasíu frá árinu 1973. Myndin verður sýnd í tveimur sölum samtímis í Bióparadís á sunnudag klukkan 20, undir merkjum svartra sunnudaga, en svartir sunnudagar eru bíókvöld þar sem sjónum er beint að költmyndum svokölluðum auk klassískra verka, undir listrænni stjórn Hugleiks Dagssonar, Sigurjóns Kjartanssonar og Sjóns. Búast má við mikilli aðsókn kvikmyndaunnenda að þessum einstaka viðburði. Allur ágóði af miðasölu rennur til styrktar á gerð nýjustu myndar Jodorowskys, Endalaus ljóðlist.  

Guðmundur Oddur Magnússon þekkir vel til Jodorowskys. Hann heimsótti Víðsjá og sagði frá.