Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri, segir að snjóflóðin í kvöld hafi rifjað upp óþægilegar minningar frá árinu 1995. Hann hafi heyrt mikinn hvell og farið strax af stað. „Við erum að gera okkur klára til að rýma hús sem nemendur lýðskólans voru í þegar við fengum fregnir af því að flóðið hefði lent á einu húsi.“ Flóðið hafi því farið yfir annan varnargarðinn.

Þar voru móðir og þrjú börn.  Eitt þeirra, unglingsstúlka lenti í flóðinu og björgunarsveitarmenn voru fljótir að grafa hana upp og hafa unnið að því að halda á henni hita. „Hún er mest hrædd en henni er að hlýna. Við fengum að fara með hana inn í sundlaugina þar sem er mestur hiti.“

Magnús Einar segir að innsiglingin sé lokuð og það séu bátar sem fljóti þarna um og því verði það örugglega erfiðleikum bundið fyrir varðskipið að komast þar að. „Þetta er svakalegt tjón,“ segir Magnús. 

Í yfirlýsingu sem Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Lýðskólans á Flateyri sendi frá sér, segir að allir nemendur skólans séu ómeiddir, öruggir og komnir í hús. „Annað flóðið féll austan þeirra smáhýsa sem hluti nemenda býr í eftir að hafa farið með varnargarði sem beindi flóðinu frá byggðinni inn í smábátahöfn staðarins. Sá hluti nemenda sem býr í smáhýsunum hefst nú við í kennsluhúsnæði skólans í Samkomuhúsinu þar sem húsin hafa verið rýmd eftir áætlun. Hinn hluti nemendahópsins dvelst á heimili sínu í nýjum nemendagörðum sem skólinn rekur í miðju þorpsins. Stjórn skólans og starfsfólk þakkar af öllu hjarta yfir að ekki fór ver og að allir i þorpinu eru heilir.“