Þann 23. mars 1983 voru lög um bann við ofbeldismyndum samþykkt. Tveimur árum síðar var birtur svonefndur bannlisti, með 67 kvikmyndum, sem ólöglegt var með öllu að dreifa eða sýna á Íslandi. Rassía var gerð á vídeóleigum og Páll Óskar Hjálmtýsson var kallaður til lögreglu.

Aðgerðirnar, ástæður þeirra og umgjörð voru róttækt inngrip í menningarneyslu þjóðarinnar að sögn Björns Þórs Vilhjálmssonar lektors sem fjallar um bannlistann og Kvikmyndaeftirlit ríkisins í nýjustu útgáfu Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar.

Björn ræddi bannlistann í Lestinni á Rás 1 á fimmtudag. Sagði hann bannlistann hafa verið svar við vídeóleigunum sálugu. Áður hafði neyslu myndefnis verið stýrt í gegnum kvikmyndahúsin en nú hafði almenningur skyndilega aðgengi að aragrúa af efni. Meðal þess voru myndir á við Cannibal Holocaust, sem Björn Þór segir hafa verið eins konar táknmynd þeirrar „myndbandameinsemdar sem þurfti að uppræta.“ 

„Þessi mynd verður mjög fræg á Íslandi,“ segir Björn. „Hún var vissulega gott dæmi um þá blygðunarlausu, bersýnu tegund kvikmynda sem þarna allt í einu voru komnar upp á yfirborðið. En til viðbótar við það að vera býsna grótesk þá var því haldið á lofti að í þessari kvikmynd væru raunveruleg morð framin, raunverulegar nauðganir og raunverulegt mannát.“

Vandræði í Vinabæ

18. febrúar 1985 gerði lögreglan rassíu á myndbandaleigum borgarinnar og gerði allar myndir af bannlistanum upptækar. 

„Í kjölfarið var fræðilega séð hægt að handtaka fólk fyrir umsýsl með þessar myndir en það var hins vegar afskaplega sjaldan gert,“ segir Björn Þór.

„Páll Óskar Hjálmtýsson er held ég jafnvel eina manneskjan sem ég veit um sem var bókstaflega kallaður til lögreglunnar og kærður.“

Í grein sinni vísar Björn Þór í grein DV um málið. Þar lýsir Páll Óskar uppákomunni svo:

„Ég var stundum fenginn til að halda fyrirlestra í skólum, menntaskólum og alls konar svona kvöldum og ég var með svona splatter-fyrirlestur um sögu splatter-myndanna og náttúrulega máli mínu til stuðnings þurfti ég að sýna vel valin atriði úr þessum myndum.

En málið er að þetta var í Vinabæ og það hefur örugglega gömul kona arkað inn í Vinabæ, einhver villuráðandi gömul kona labbað þarna inn og hún hefur örugglega haldið að hún væri að fara á bingókvöld. Við blasir bara gums. Þessi kona hefur hringt á lögregluna. Það næsta sem ég vissi, ég var akkúrat að DJ-a á skólaballi á Hótel Íslandi, koma lögreglumenn inn í DJ-búrið, þeir voru rosalega kurteisir og sögðu: „Við erum hingað komnir til þess að handtaka þig því okkur barst kvörtun, þú veist, út af bíósýningum.“

Þó fylgir sögunni að Páll Óskar hafi fengið að „klára giggið“ áður en hann mætti upp á lögreglustöð.

Skemmtilegt ofbeldi hættulegra

Í menningarþættinum Geisla á RÚV, 1987, voru pallborðsumræður um aldurstakmörk á bíósýningum og bann á ofbeldismyndum. Þar tókust á þeir Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður, Níels Árni Lund forstöðumaður Kvikmyndaeftirlits ríkisins og Sjón rithöfundur.

„Mér virðist þið taka móralska afstöðu í myndinni Kóbru, þar er Sylvester Stallone að saxa niður einhver illmenni,“ segir Sjón og vísar þar í mynd sem var leyfð börnum.

„Í mörgum þessum myndum sem ég er að tala um þá kemur fram fjölbreyttari og öðruvísi afstaða til mannlegs lífs. Þetta hefur verið gert í bókmenntum og ég segi eins og þú, hvenær koma þeir með reglur um það að það megi ekki selja Ísfólkið?“

Níels mótmælir og segir kvikmyndina áhrifameiri miðil en Sjón vill einmitt meina að bókin sé sterkari. Þar fái ímyndunaraflið að grassera. 

„Og það er eitt sem ég vil benda þér á og það er það að kvikmyndir sem gera ofbeldið skemmtilegt, sjarmerandi með fallegum hetjum - það er mun hættulegra en kvikmyndir þar sem ofbeldið er andstyggilegt og þú hræðist það.“

Níels svarar því til að Sjón vilji heyrilega banna fleiri myndir en þá þegar var gert. „Og það er þitt mál.“