„Ég er bara að vinna hér með kærustunni minni og við erum að sjá um staðinn ásamt öðrum, skipuleggja viðburði eins og bíókvöld, spilakvöld og dansíókí,“ sagði leikarinn Vilhelm Neto þegar Sumarið heimsótti hann í Frystiklefann í Rifi á Snæfellsnesi.

Þrátt fyrir að oft séu sett upp leikrit í Frystiklefanum mun Vilhelm ekki leika í sumar því aðeins eitt leikrit er á dagskrá, og meira um viðburði eins og spurningakeppnir og tónleika. Þetta er annað sumarið sem Vilhelm sér um Frystiklefann en í fyrra setti hann upp grínleikritið Humours byggt á plötunni Rumours með Fleetwood Mac. Hann er farinn að þekkja Snæfellsnesið nokkuð vel og fer með þau Helgu Margréti og Jafet Mána í ferð um áhugaverða staði í nágrenninu.

Sumarið er nýr dægurmálaþáttur sem er á dagskrá RÚV mánudaga til fimmtudaga klukkan 19:35. Þar verður kíkt á mannlífið og menninguna í borg og sveit, kafað ofan í djúpar safnkistur RÚV, og grillað að hætti grænkera með Guðrúnu Sóleyju, svo fátt eitt sé nefnt.