„Ég hélt að ég væri með flensu," segir Svanur Freyr Jóhannsson, rafvirki á Reyðarfirði, sem liggur nú veikur heima með mislinga. Hann taldi sig bólusettan og bjóst því ekki við að hann hefði getað smitast þótt hann hefði verið í flugi með mislingasmituðum manni. Eftir að hann veiktist komst hann að því að hann hefði líklega bara fengið eina sprautu af tveimur gegn mislingum.

Fjórir hafa nú greinst með mislinga hér á landi, tveir karlar og tvö börn. Síðdegisútvarpið talaði við Svan Frey sem er annar karlmannanna sem veiktust.

„Það að vera með mislinga lýsir sér bara eins og maður sé með heiftarlega flensu, sagði Svanur. „Fyrst fann ég ekki neitt. Svo bara allt í einu á fimmtudag fór ég að finna eins og ég væri að byrja að fá flensu, sem var alveg eðlilegt því hér var fullt af mönnum með flensu, eins og á verkstæðinu hjá okkur og svona. Svo á föstudaginn var ég náttúrulega slappari og á föstudagskvöldið þá var það nú endanlega búið, þá var ég kominn í rúmið. Og laugardagurinn var bara skelfilegur. Sunnudagurinn líka. Ég fékk hita- og kuldaköst til skiptis. Svo á mánudagsmorguninn þá vaknaði ég og kíkti í spegilinn, þá sá ég nú að þetta var eitthvað undarlegt. Þá var ég kominn með útbrot líka. Þá mundi ég nú eftir bréfinu sem ég fékk frá Sóttvarnarlækni."

Svanur vísar þar til bréfs sem sent var til farþega í flugi þar sem verið hafði mislingasmitaður maður og fólk var beðið að láta vita ef það fyndi fyrir einkennum.

„Ég náttúrulega bjóst alls ekki við að þetta væri neitt sem skipti mig neinu máli. Því að ég átti ekki von á öðru en að ég væri bara bólusettur og bara allt í góðu lagi með það. Svo þegar ég fór að kanna þetta eftir á, þá kemur í ljós að ég hafði fengið eina bólusetningarsprautu við mislingum þegar ég var um átján mánaða en eftir því sem mér skilst á maður að fá tvær. En einhvern veginn hefur það farist fyrir. Ég hef náttúrulega ekkert spáð í það þannig að þetta fór eins og það fór."

Svanur segir að hann megi umgangast fjölskylduna því hún sé öll bólusett. En enginn má koma í heimsókn. „Og ég held að ég sé ekkert vel séður í bænum."

Hann segist ekki hafa miklar áhyggjur af sjálfum sér. „En ástæðan fyrir að ég fór að setja mig í samband við lækni er að ég hef verið víðförull um sveitarfélagið. Ég er starfandi sem rafvirki, kem inn á alls konar heimili. Þegar mig grunaði þetta þá þorði ég ekki annað en að láta ganga úr skugga um þetta." Hann þarf nú að vera heima í þrjár vikur.