Það gætu ekki allir tekið því af æðruleysi að puttabrotna á báðum höndum í miðri krabbameinsmeðferð og að lenda svo fyrir sendiferðabíl fullum af frosnum makríl. Halla Margrét Jóhannesdóttir leikkona, sem er að leggja lokahönd á aðra ljóðabók sína, sér jafnan það spaugilega í baksýnisspeglinum þótt reynslan sé erfið á köflum.
„Þetta er allt gert með aðstoð ljósmóður eða ljósföður sem leiðir þig í gegnum fæðinguna. Þú situr á stól og hann biður þig að lúta höfði. Svo lyftirðu höfðinu, telur upp að tíu, opnar augun og gefur frá þér hljóð.“ Þannig lýsir leikkonan, skáldið og trúðurinn Halla Margrét Jóhannesdóttir því hvernig trúðasjálf hennar hún Za-Ra fæddist, í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.
„Za-Ra er mjög nákvæm. Hún er stjórnsöm og henni er mikið í mun að hlutirnir gangi vel fyrir sig,“ segir Halla Margrét og hlær. „Það var svo hlaðin stund þegar ég fæddi minn trúð að þegar ég opnaði augun fór ég í sundur með fæturna og pissaði í mig. Za-Ra sagði um leið: „Ég pissaði í mig,“ og leið illa yfir því. En auðvitað fannst öllum öðrum þetta fáránlegt.“
Trúðurinn Za-Ra fæddist og skellti sér í fljótt eftir það beint upp á svið í Borgarleikhúsinu með fríðu föruneyti annarra trúða. Fylgdi hún trúðum, áhorfendum og sjálfum Dante til helvítis og alla leið upp í Paradís, í verkinu Dauðasyndirnar sem naut gífurlegra vinsælda þegar það var sett á svið árið 2008.
Um ferðalag Zö-Ru, trúðanna og Dantes segir Halla Margrét að það hafi verið mögnuð vinna þar að baki. „Það var ómetanlegt að vera í hópi sem vann þessa sýningu en þetta var líka andlegt ferðalag,“ segir Halla en hinir trúðarnir á sviðinu voru túlkaðir af leikurunum Halldóru Geirharðsdóttur, Bergi Ingólfssyni og Hörpu Arnardóttur. „Ekkert okkar var samt eftir þessa sýningu.“
Þótt það sé meira en áratugur síðan Za-Ra heillaði gesti Borgarleikhússins þá er hún ekki alveg af baki dottin. Halla hefur nefnilega gripið í hana, til dæmis á fyrirlestrum og Za-Ra hefur líka kennt börnum ljóðaskrif. Auk þess hefur hún einstaka sinnum látið sjá sig í boðum og á mannamótum. „Henni finnst rosalega gaman að hitta fólk,“ segir Halla sposk.
Krabbameinsgreining í miðri ljóðabókaútgáfu
Þó að Za-Ra sé í dvala hefur verið nóg um að vera hjá Höllu Margréti. Hún hefur síðustu ár staðið fyrir ýmsum gjörningum, klárað meistaranám í ritlist í Háskóla Íslands, leikið á sviði og á hvíta tjaldinu og gefið út ljóðabókina 48 sem fékk góðar viðtökur árið 2013. Í sama mund og bókin leit dagsins ljós komst Halla Margrét að því að hún væri með krabbamein.
Henni tókst þrátt fyrir sláandi fréttirnar að fagna útgáfu og brosa framan í myndavélar og sína nánustu. „Það var tveimur vikum fyrir útgáfupartýið sem ég fór í krabbameinsleit og það kemur í ljós einhver kölkun. Ég fór í einhvern skurð til að fjarlægja það sem talið var vera góðkynja æxli en fékk svo að vita að þetta væri krabbamein.“ Krabbameinið var ekki nema örlítið þegar það uppgötvaðist en það var þrátt fyrir smæð sína byrjað að dreifa sér. „Ég kalla þetta stundum dúkkukrabbamein því það var svo lítið,“ segir hún kímin.
Mein Höllu var innan við sentimetri en það getur þrátt fyrir smæð verið lífshættulegt. Í kjölfarið var hennar mein sett í ákveðið ferli og hún segir að sér hafi fundist skjóta skökku við að hennar ferill ætti að vera sá sami og hjá næstu konu sem var með töluvert stærra mein. Henni var tilkynnt að fram undan hjá henni væri að fara í bæði geisla- og andhormónameðferð. „Ég lagðist undir feld, fór í göngutúra og aflaði mér upplýsinga. Á endanum tók ég þá ákvörðun að vera þakklát fyrir alla möguleika sem mér stóðu til boða.“
„Nei takk“ við andhormónameðferð
Hún fór í tvo skurði og sá síðari kom mjög vel út. Í kjölfarið fór hún í nokkurra daga göngu með ellefu ára dóttur sinni þar sem hún komst að því að hún yrði að fara sína eigin leið í þessari vegferð og öðrum. „Ég gleymi aldrei töfrandi stundu þegar við sigldum yfir spegilsléttan Langasjó og ég sá eyjuna Ást speglast í vatninu.“ Vafinn lætur enn á sér kræla þótt Halla sé viss í sinni sök og þegar það gerist hugsar hún til baka til þessarar stundar og sannfærist.
Halla þakkaði því læknunum kærlega fyrir að bjóða henni andhormónalyfin en ákvað að þiggja þau ekki. „En ég sagði samt nei takk. Ég fann að ég þyrfti að vera í tengslum við sjálfa mig og þá þekkingu sem ég hafði aflað mér í algjörri auðmýkt gagnvart lífinu og dauðanum sem við öll einhvern tíma mætum.“
Spurð hvort það hafi verið erfitt að segja sínum nánustu frá ákvörðun sinni segir Halla að maðurinn hennar hafi fylgt henni hvert skref í erfiðu ákvörðunarferli. „Að fá krabbamein, þetta orð er svo gildishlaðið. Það fá allir hundsaugu og eru alveg ohh þú ert að fara að deyja. En það er ekki alltaf svo. Þetta eru frumur sem ruglast og stundum ruglast þær svo mikið að þær drepa þig, en þegar þær ruglast verður maður að gera allt sem í manns valdi stendur.“
Hluti af bataferli Höllu Margrétar var að hennar sögn að skapa aðstæður í huga og tilfinningum fyrir jákvæðni. Hún stundaði jóga af krafti og er síðan orðin jógakennari.
Aðstoð á salerninu meira álag á hjónaband en IKEA-húsgögn
Halla er þriggja barna móðir og á að eigin sögn mann, móður og hund. Hluti af hennar hlutverkum sem móður er að fara á fótboltamót með krökkunum. Hún varð þó hugsi, hvort hún ætti að treysta sér á eitt slíkt sem haldið var í Vestmannaeyjum nýgreind með krabbamein, en vinkona hennar hvatti hana til að skella sér til að einangrast ekki með hugsunum sínum. Þar lenti hún í óhappi.
„Ég hafði aldrei sprangað svo við maðurinn minn ákváðum að slá til. Ég fæ svona rugl í hausinn og hugsa, jú þú lifir nú bara einu sinni, en þegar ég er komin upp á sylluna hrópar maðurinn minn: Horfðu bara á Heimaey og ýttu þér svo frá!“
Þrátt fyrir skýrar leiðbeiningar gekk sprangið ekki sem skyldi. „Ég slengdist úr spröngunni og lenti á fingrunum. Á annarri hendi braut ég þrjá fingur og á hinum fjóra.“
Þegar fótboltamamman mætti á hliðarlínuna daginn eftir að hvetja sitt lið var hún með hvíta flennistóra boxhanska á báðum höndum. „Þetta er meira fyndið eftir á en ekki,“ segir hún og skellihlær. „Ég gat ekki burstað tennur, ekki skeint mér og það er mjög fyndið að vera 48 og þurfa að hrópa: Ég er búin! Þetta reyndi á hjónabandið. Að setja saman IKEA-innréttingu er ekkert en láttu manninn skeina þér.“
„Hvað á ég aftur að segja næst?“
Ekki er þó óhappasögu leikkonunnar lokið því hún lendir líka í miklum árekstri þegar hún er að hjóla og vöruflutningabíll með 37 tonn af frosnum makríl innanborðs keyrir á hana á fullri ferð. Þegar Halla Margrét rankaði við sér stóð yfir henni amerískur bráðaliði og skipar henni að hræra sig hvergi. Leikkonan mundi ekki eftir skellinum og hjólaferðinni og datt strax í hug að hún hlyti að vera að leika í bíómynd en mundi ekki línurnar sínar. „Ég sé sjálfa mig speglast í sólgleraugunum og hugsaði: Hvað á ég aftur að segja?“
Þegar Halla Margrét áttaði sig á því hvað gerst hafði, og enn fremur að hún gæti hreyft fæturna, þá sendi hún áhyggjufullum bílstjóranum þumalinn til merkis um að hún væri með lífsmarki og vel það. „Ég fyrirgaf honum strax,“ segir hún ákveðin. „Hann var með þennan frosna makríl og mátti ekki vera að því að stoppa.“
Til allrar hamingju voru áverkarnir ekki lífshættulegir en það má teljast ljóst að hjálmurinn sem splundraðist við áreksturinn hafi haft mikið að segja. „Ég krambúleraðist, fékk innvortis blæðingu og áverka hér og þar. Aðaláverkinn var á rassinum á mér, hann varð fimmfaldur því ég lendi á bakinu. Þegar ég lá þarna inni á Landspítalanum fannst mér skondið þegar læknarnir komu og sögðu ertu ekki brotin? Má ég sjá rassinn? Því hann var sjöfaldur, eins og útþaninn blóðmörskeppur.“
Hjálpar öðrum að nálgast drauminn
Um þessar mundir er Halla Margrét að leggja lokahönd á undirbúning ritlistarnámskeiðs sem hún stendur fyrir ásamt Soffíu Bjarnadóttur skáldi og vinkonu sinni. Námskeið þeirra eru haldin í Dósaverksmiðjunni í Borgartúni og til þeirra kemur fólk sem er mislangt leitt af ritlistarbakteríunni, bæði byrjendur og lengra komnir sem dreymir um að skapa í góðum hópi.
Hún segist aldrei hafa hitt manneskju með of stóra drauma sem hún hafi þurft að ráðleggja að finna sér aðra fjöl í lífinu. „Við þurfum öll að leyfa okkur að dreyma stóra drauma, þá vitum við hvert við viljum fara. Þannig eigum við drauminn og getum spurt okkur daglega hvað get ég gert í dag til að nálgast drauminn?“
Ljósmóðir ljóða gefur út eigin ljóð
Á námskeiðinu leiðbeina þær fólki meðal annars hvað varðar sjálfsgagnrýni. „Maður getur nefnilega gefið sér svo margar afsakanir fyrir því að tjá okkur ekki. Við þurfum að taka dragbítana í burtu,“ segir hún. „Skildu svipuna eftir frammi, hún á ekki að vera inni. Sköpum okkur umhverfi sem er öruggt og við getum tjáð það sem við viljum tjá.“
Halla segist sjálf þurfa í sínum eigin skrifum að hafa fyrir því að minna sig á að rífa sig ekki niður. „Ég finn bæði fyrir dragbítunum en líka fyrir litla töfrabarninu sem segir, ég má líka leika mér.“
Ásamt því að stýra ritlistarnámskeiði er Halla að leggja lokahönd á aðra ljóðabók sína, Ljós og hljóðmerki, en bókin er væntanleg á haustdögum þegar að Halla hefur lokið störfum sínum sem ljósmóðir annarra ljóða í Dósaverksmiðjunni í Borgartúni.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Höllu Margréti í Segðu mér og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.