Um 850 milljónir, eða um helmingur allra skólabarna í heiminum, geta ekki sótt skóla vegna útbreiðslu COVID-19. Takmarkanir stjórnvalda víða um heim hafa margvísleg áhrif.
Hin norsku Pernille og Ludvik og hinn sómalski Mohamed Mahad, sem sjá má á meðfylgjandi myndskeiði, eru ekki einu nemendurnir í heiminum sem þurfa að læra heima næstu daga og vikur. Samkvæmt upplýsingum frá UNESCO hefur skólum verið lokað í 102 löndum og í ellefu löndum til viðbótar er skólastarf skert. 850 milljónir nema um heim allan mega ekki mæta í skólann í aðstæðum sem stofnunin segir án nokkurrar hliðstæðu í sögunni.
Og við þessar nýju aðstæður breytist eiginlega allt. Afmælisveislur eru til að mynda haldnar með breyttu sniði víða. Samhugur, þakklæti og hjálp er nokkuð sem víða verður enn meira áberandi þegar heimurinn tekst á við sameiginlegt verkefni.
Í Slóvakíu hafa hátt í hundrað tilfelli greinst og þar leggjast öll á eitt. Bæjarstjórar eru meðal þeirra sem ganga með vörur í hús til þeirra sem ekki mega fara út meðal fólks.
Neyðin kennir naktri konu að spinna, segir máltækið. Og þótt það sé alls ekki nakið merkir sölufólk í álnavöruverslunum í Tékklandi mikla aukningu í sölu á efni, því hver segir að andlitsgrímur þurfi allar að vera eins? Þetta er þó ekki bara til gamans gert, því ríkisstjórn Tékklands hefur gefið út þau tilmæli að enginn megi yfirgefa heimili sitt án þess að vera með grímu fyrir vitunum.