Brynhildur Guðjónsdóttir tók það ekki í mál að vera stoppuð af í ræðu sinni þegar hún var að þakka Kristínu Eysteinsdóttur fyrir að treysta sér fyrir að setja upp karllægt verk á feminískan hátt. „Höldum áfram að vera kjarkmikið listafólk og treystum listinni. Hún er máttugasta tungumálið,“ sagði hún meðal annars þegar hún tók við leikstjórnarverðlaunum í kvöld.
„Bíddu ég verð að fá að klára þetta,“ bað Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona og leiksthóri þegar hún hélt langa þakkarræðu eftir að hafa hlotið Grímuna sem leikstjóri ársins fyrir sýninguna Ríkharður iii. „Það er fyrst og síðast Kristínu Eysteinsdóttur að þakka að við yfirleitt höfðum eitthvað mark að stefna að,“ hélt hún áfram. Þegar hljómsveitin gerði sig líka til að spila hana af sviðinu ítrekaði hún: „Ég verð að fá að klára þetta, Helgi Svavar lemdu hann,“ og uppskar mikið lófaklapp og hlátur.
„Takk fyrir að trúa mér fyrir því verkefni að skoða 400 ára gamalt leikrit, eitthvað það karllægasta úr ranni Shakespeares úf frá sjónarhóli kvennanna í verkinu. Takk fyrir að treysta mér fyrir nýrri söguskoðun, nýjum áherslum og nýrri sýn,“ hélt hún áfram.
Þakkarræða aðalleikara Ríkharðs iii var í svipuðum dúr en Hjörtur Jóhann Jónsson sagðist ætla að gera þveröfugt við það sem karlremban Ríkharður hefði gert í svipuðum sporum, og hann þakkaði konum fyrir verðlaunin þegar hann hlaut Grímuna fyrir leik sinn.