Áströlsk hjón sem fundust í námunda við Langjökul í gærkvöldi eftir umfangsmikla leit björgunarsveitarfólks töldu að þau yrðu úti. Fólkið var í vélsleðaferð með ferðaþjónustufyrirtækinu Mountaineers of Iceland. Veðurstofan hafði varað við stormi en engu að síður var ferðinni ekki aflýst. Vélsleði hjónanna stöðvaðist og þau bíðu árangurslaust eftir því að leiðsögumaður uppgötvaði að þau hefðu orðið eftir. Á endanum grófu þau sig í fönn.

Hjónin David Wilson og Gail Wilson frá Ástralíu ætluðu að fara með Mountaineers of Iceland á Langjökul. Lagt var af stað frá Skálpanesi þrátt fyrir aðvaranir veðurfræðinga. Þegar hópurinn var kominn að sporði Langjökuls var ákveðið að snúa við vegna veðurs. Viðtal Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar við hjónin má sjá í spilaranum hér að ofan.

David segir að hópnum hafi verið skipt í tvennt. Þau hjónin hafi verið á einum vélsleða og tíu sleðar til viðbótar hafi verið í hópnum. David og Gail voru á aftasta vélsleðanum og áttu allir að aka í röð hver á eftir öðrum. Leiðsögumaður hafi sagt þeim að yrði einhver viðskila ætti sá hinn sami að bíða kyrr og þá myndi leiðsögumaður koma eftir 5 til 10 mínútur. Leiðsögumaðurinn hafi gengið á röðina en stuttu eftir að hann hafi snúið sér við segist David óvart hafa rekið höndina í takka á vélsleðanum og þannig hafi hann drepið á honum. Honum hafi ekki verið kennt að koma honum í gang að nýju og þess vegna hafi hann staðið upp og hrópað og veifað til leiðsögumannsins sem ók af stað án þess að taka eftir sér. Þau hjónin hafi beðið í tvo og hálfan klukkutíma eftir að leiðsögumaðurinn sneri aftur en ekkert hafi bólað á honum.

Gríðarlegur léttir

David segir að eftir hálftíma hafi honum tekist að koma vélsleðanum aftur í gang. Þau hafi séð grilla í slóðina og ákveðið að reyna að fylgja slóðanum. Þau hafi síðan komið að ísilögðu svæði þar sem slóðin hafi horfið. Þeim hafi verið orðið afar kalt og því ákveðið að grafa sig í fönn. „Konan mín var skelfingu lostin, hún hélt að við myndum deyja þarna,“ segir David. 

Ferðaþjónustufyrirtækið uppgötvaði um þrjúleytið að David og Gail hefðu orðið viðskila við hópinn og björgunarsveitir voru kallaðar út klukkan 15:38 í gær. 

David segir að þau hjónin hafi ákveðið að drepa á vélsleðanum klukkan sjö til þess að spara eldsneytið. Rétt fyrir klukkan níu hafi þau séð tvö dauf ljós framundan. „Þau voru mjög dauf. Ég spratt á fætur og setti vélsleðann í gang. Við fylgdumst með þeim og þau virtust vera að hverfa en svo sneru þeir við, sáu okkur og komu og björguðu okkur,“ segir David. 

Það hafi verið gríðarlegur léttur að vera bjargað. „Ég óttaðist að við yrðum þarna alla nóttina, fram á morgun. Og að það yrði ekki gott,“ segir Gail og kemst við þegar hún er spurð hvort hún hafi talið að hún myndi ekki lifa það af.

Slæmur draumur

David segir að ástandið hafi verið þolanlegt á meðan þau hafi verið að grafa sig í fönn, en það hafi verið verra þegar þau sátu bara og biðu eftir að verða bjargað. „Við höfðum ekki hugmynd um hvað væri að gerast. Síðan fór hugurinn að spila með mann: Eru þeir búnir að gleyma okkur? Eru þeir farnir? Áttuðu þeir sig ekki á því að við urðum eftir?,“ segir David. 

Gail segir að það hafi verið afar kalt. „Það var stormur. Þeir hefðu aldrei átt að leggja í þessa ferð,“ segir David sem er afar óánægður með Mountaineers of Iceland. „Það ætti að loka fyrirtækinu. Það sendir okkur af stað þegar það er stormviðvörun. Við töluðum við annan leiðsögumann. Hann fór af stað með hóp en sneri til baka eftir 15 mínútur af því að þetta var ekki öruggt,“ segir David. „Í öðru lagi þá kenndu þeir okkur ekki að gangsetja sleðann. Það er alveg fáránlegt,“ segir David. 

Þá furðar David sig á því hvers vegna fyrirtækið hafi ekki farið með þau á sjúkrahús. „Við fórum sjálf í dag og erum búin að borga offjár,“ segir David.

„Þetta er bara eins og slæmur draumur, ég óttast að vakna þarna í fönninni aftur,“ segir Gail.

Þau eru hins vegar afar ánægð með björgunarsveitarfólkið og eru þeim mjög þakklát.