„Ryk er eitthvað sem flestum finnst óaðlaðandi og ljótt og vilja ekki sjá. Við reynum að koma að ryki úr annarri átt og skoða það hlutlaust, burtséð frá venjulegu aðstæðunum sem það er í,“ segir Kristinn Arnar Sigurðsson, annar tveggja listamanna sem opnuðu nýverið sýninguna Að safna ryki í Núllinu gallerýi.

Sýningin samanstendur af portrettmyndum með ryki af heimilum ólíkra einstaklinga. Valdir hlutar ryksins eru steyptir í silíkon og þannig dregnar upp sýnishorn af lífi, iðju og híbýlum eigenda. Rætt var við þau Högnu og Kristinn í Menningunni.

Undirbúningur sýningarinnar gekk greitt að sögn Högnu Jónsdóttur listamanns. „Við höfðum samband við fullt af fólki og útskýrðum fyrir þeim að okkur langaði ótrúlega mikið í rykið þetta. Og flest sögðu bara já.“ 

Breidd í rykinu

Kristinn segir áherslu hafa verið lagða á að tryggja breidd hópsins. „Okkur langaði að fá svolítið fjölbreyttan hóp, ekki bara fólk í kringum okkur eða fólk úr ákveðnum geira. Þannig að við reyndum að fá breidd í rykið og það er hluti af því sem við erum að gera, skoða hvað er mismunandi milli ryks hjá stöðumælaverði, myndlistarmanni eða geðlækni eða hvort þetta sé allt eins,“ segir hann.  

Fullt af litríku dóti

Högna hefur um nokkurt skeið unnið með ryk sem efnivið í sinni myndlist. „Ég á það til að ryksuga upp hluti sem ég á ekki að ryksuga upp þótt að mamma banni mér það, en bara nýverið fékk ég samviskubit yfir því. Þannig að ég fór alltaf að grafa eftir því aftur, inn í ryksugupokann. Og þar fann ég bara fullt af litríku dóti og ég elska liti þannig að þessi heimur inni í ryksugupokanum fór að heilla mig.“

Sýningin stendur til 23. júní og allar nánari uplýsingar má finna hér