Fall Berlínarmúrsins er með sögulegri viðburðum síðustu áratuga 20. aldarinnar, táknmynd um fall Sovétríkjanna og kommúnískra stjórnvalda í Austur-Evrópu þótt svo það hafi gerst á lengra tímabili. Austur-Þjóðverjar höfðu um nokkurt skeið nýtt sér opnun landamæra Ungverjalands og Tékkóslóvakíu til að komast til vesturs. Þegar austurþýsk stjórnvöld tilkynntu að landamærin yrðu opnuð streymdu landsmenn í gegnum landamærastöðvar. Það var þó ekki nema önnur frétt í kvöldfréttum sjónvarps þann dag.
Fyrsta frétt var um vandræði í viðræðum við Sovétmenn um sölu á síld í austurveg. Mikil óvissa hafði skapast eftir viðræður dagsins. Á endanum náðist svo samningur.
Síldarsamningurinn er að mestu gleymdur en atburðirnir við Berlínarmúrinn hafa verið skráðir á spjald sögunnar. Þó má hafa í huga að atburðirnir gerðust hratt þessa dagana og ef til vill erfitt að átta sig á mikilvægi þeirra í hita leiksins.
Áhersla á innlendar fréttir
Sigrún Stefánsdóttir og Árni Snævarr voru fréttaþulir þetta kvöld en réðu því reyndar ekki hvernig fréttirnar röðuðust upp í fréttatímann.
„Það átti alltaf að vera innlend frétt fyrst í fréttatímanum. Það þurfti mikið að ganga á til að það breyttist,“ segir Sigrún, 30 árum síðar. „Ég held að það hafi fyrst og fremst ráðið þessari skrýtnu uppröðun, þegar maður lítur til baka.“ Sigrún tekur þó fram að hún muni ekki eftir umræðu um fréttauppröðunina á þessum tíma. Þó megi hafa í huga að stundum hafi fréttatímarnir riðlast vegna þess að fréttir voru ekki tilbúnar auk þess sem myndefni frá útlöndum hafi verið lengur að berast þá en núna, auk þess hafi erlendar fréttir haft minna vægi í fjölmiðlum en nú er.