Þrjúhundruðasti þáttur Landans, sem verður jafnframt fyrsti þáttur vetrarins, hefst eftir fréttir sunnudaginn 22. september og lýkur ekki fyrr en sólarhring síðar, og verður þátturinn allur í beinni útsendingu.

„Þetta verður eiginlega heill vetur ef allar mínúturnar eru taldar saman,“ segir Gísli Einarsson Landamaður við Dodda litla í Morgunverkunum. Fimm umsjónarmenn verða á ferðinni um allt land í heilan sólarhring, hver í sínum landshlutanum, flakka á milli, taka viðtöl, segja frá og sýna hvað landsmenn eru að fást við í starfi og leik. „Hugmyndin var upprunalega að vera með hægvarp eins og beint frá burði, en svo verður þetta bara nokkuð hratt. Við ætlum að fá innsýn í líf þjóðarinnar eins vítt og djúpt og við getum á einum sólarhring.“ Að auki fá áhorfendur að skyggnast á bak við tjöld útsendingarinnar sjálfrar. „Séð okkur að vandræðast, ná ekki sambandi, eða í veseni. Þannig þetta verður dagur í lífi landans, með litlum og stórum staf, fyrst og fremst þjóðarinnar en líka við að gera sjónvarp.“

Edda Sif Pálsdóttir segir þau ætla meðal annars að fylgjast með hversdagslegum athöfnum þjóðarinnar. „Hittum bakarann sem er að undirbúa daginn, svo er kannski fótboltaleikur úti á landi, við ætlum bara að hitta fólk.“ Þau hafa þegar gert ráðstafanir um hvað verður í útsendingunni um nóttina. „Það gerist alls konar á nóttunni, við munum bara finna það.“ Svo umfangsmikil útsending er ekki auðvelt verkefni. „Þetta verður held ég svona skipulagt kaos,“ segir Edda Sif. „Ég held jafnvel að það skemmtilegasta í þessu verði eitthvað sem við höfum ekki hugmynd um fyrir fram. Við verðum með gróft plan.“

Hugsunin er sú að reyna að ná yfir sem flesta staði á landinu, meðan eitt teymið er í útsendingu noti hin til að ferðast yfir á næst stað og svo framvegis. „Það getur alveg komið upp á að sambandið bilar og þá sé Edda kannski að borða pulsu á Stokkseyri og þurfi að fara í útsendingu með pulsuna í hægri.“ Edda Sif bætir við að pulsur skipi stóran sess í vinnudegi þeirra. „Ég er búinn að vera 20 ár á þjóðveginum. Hvað heldurðu að ég sé búinn að borða margar pulsur?“ spyr Gísli.

Fyrsti þáttur Landans verður frá 22. til 23. september á RÚV og RÚV 2. Útsendingin hefst á aðalrás RÚV en fer síðan á RUV 2 eftir hefðbundinn Landatíma. Yfir nóttina verða þau á aðalrásinni og fram að kvölddagskrá á mánudeginum. Að auki verður hægt að fylgjast með á RÚV.is allan tímann og á samfélagsmiðlum.