Fjöldi fólks sækist eftir að koma í Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð til að bergja af kaleik sem talinn er hafa lækningarmátt. Kaleikurinn, sem er einn mesti kirkjudýrgripur landsins, er frá 13. öld og stundum kallaður álfabikarinn.
„Ég kann nú varla við það að greina frá því á opinberum vettvangi, en jú jú, hann er geymdur á réttum stað og í eldvörðum umbúðum og frekar verður ekki farið í saumana á því,“ segir Önundur Björnsson sóknarprestur á Breiðabólsstað. „Sagan segir að honum fylgi lækningamáttur þeim til handa sem að af honum bergja.“ Kaleikurinn er sem stendur sýndur á Þjóðminjasafninu en ekki er vitað með vissu hvenær hann var smíðaður. Þó er vitað að hann er ekki yngri en frá 13. öld.
Þá deila fornleifafræðingar um hvort hann er franskur, enskur eða jafnvel arabískur en sumir telja að stöpull hans sé með býsönsku lagi. „Hins vegar segir Hjördís Gissurardóttir á Vallá, sem er sérfræðingur í víravirki, að þessi kaleikur sé rammíslenskur og smíðaður hér.“ Enn aðrir telja svo að kaleikurinn sé frá álfum kominn. Árið 1397 er talað um kaleikinn í skjölum kirkjunnar en svo virðist hann hafa týnst í rúmlega 100 ár. Gangnamenn fundu hann aftur þar sem hann lá á víðavangi í Sölvarbreiðum.
Ekki er vitað með vissu hvað kom fyrir kaleikinn. „Líklegt er nú að prestur hafi verið að vísitera bæi þarna norður af Þríhyrningi, og annað hvort lagst til hvílu þarna upp frá, eða þá lent á kenderíi með einhverjum gangnamönnum sem hann hefur hitt og orðið viðskila við kaleikinn,“ segir Önundur. „Nema hann sé frá álfum kominn,“ bætir hann við sposkur og útskýrir að sú skoðun sé byggð á bletti í botni skálarinnar sem verður skjannahvítur þegar hann er fægður. Um þetta má lesar nánar í þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Önundur segir að upp úr 1930 hafi British Museum falast mjög eftir kaleiknum. „Þá var hér prófastur prestur, séra Sveinbjörn Högnason, mikill og mætur maður. Hann hlustaði gaumgæfilega á erindi þessara manna, sem lofuðu í staðinn öðrum kaleik nákvæmlega eins, nema gerður úr gulli, auk umtalsverðra fjármuna. En eftir að Sveinbjörn var búinn að hlýða á mennina sagði hann að fyrst bikarinn væri svona verðmætur þá yrði hann áfram á Breiðabólsstað. Var það góð ákvörðun? Já. Þessi kaleikur er ekki falur fyrir nokkurn einasta pening."
Rætt var við Önund Björnsson, sóknarprest á Breiðabólstað, í Morgunútvarpinu á Rás 2. Myndin efst í færslunni er frá Þjóðminjasafninu.