Mikill fjöldi fólks gerði sér ferð í Nexus í Glæsibæ um helgina enda tilefnið ærið. Tvær sólir í heimi nördamenningar röðuðust upp þann 4. maí, annars vegar ókeypis myndasögudagurinn og alþjóðlegi Stjörnustríðsdagurinn. „Ég held að það sé komið meira en nýtt líf í það, það er heil ný vetrarbraut að koma aftur,“ segja aðdáendur Stjörnustríðs og fullyrða að stríðinu sé hvergi nærri lokið.

Rétt fyrir stóra daginn bárust einnig sorgartíðindi fyrir aðdáendur Stjörnustríðsmyndanna því leikarinn Peter Mayhew er látinn, 74 ára að aldri. Hann er eflaust þekkastur fyrir að leika persónuna Loðinn eða Chewbacca í Stjörnustríðsmyndunum, hægri hönd geimsjóræningjans Han Solo.

Mayhew var ekki bara leikarinn á bakvið Chewbacca, því hann lagði einnig sitt af mörkum til góðgerðarmála. Hann stofnaði Peter Mayhew-stofnunina sem hefur aðstoðað fjölskyldur í vanda. 

Lestin kom við í Nexus og kynnti sér það sem var um að vera.