Það er skammt stórra högga á milli hjá Matthíasi Rúnari Sigurðssyni myndhöggvara. Hann sýnir höggmyndir sínar í sýningaröðinni Innrás í Ásmundarsafni og er gestalistamaður í Ásmundarsal, þar sem hann heggur út nýja mynd fyrir opnum tjöldum.
Innrás er sýningaröð þar sem völdum listamönnum er boðið að máta verk sín við höggmyndir Ásmundar Sveinssonar á Ásmundarsafni í Laugardal. Matthías er þriðji listamaðurinn af fjórum sem tekur þátt í röðinni og sýnir þar tólf höggmyndir.
Heggur út ketti
„Ég er að sýna steina, höggmyndir af ýmsum furðuverum, blöndu af mönnum og dýrum og þess háttar,“ segir Matthías um verkin en hann er sjálflærður myndhöggvari. „Það var árið 2010, ég var að prófa mig áfram með ýmis konar efni, prófaði að móta í leir og gifs og eitthvað svoleiðis. Síðan prófaði ég að nota stein líka. Ég bara prófaði mig áfram. Þá fann ég að þetta var alveg hægt og átti alveg við mig.“
Verkin á sýningunni eru unnin með mismunandi aðferðum, þau fyrstu aðeins með hamri og meitli en síðar tók Matthías rafmagnsverkfæri í sína þjónustu.
„Yfirleitt þá reyni ég að gera eitthvað nýtt í hvert skipti, hvort sem það er viðfangsefnið eða aðferðin sem ég prófa. Undanfarið ár hef ég verið að vinna með ketti.“
Meitlað myndmál
Það er einmitt köttur sem er hægt og bítandi að taka á sig mynd fyrir utan Ásmundarsal við Hallgrímskirkju. Þar er Matthías gestalistamaður og hefur varið undanförnum vikum við að höggva út verk fyrir opnum tjöldum svo gestir geta fylgst með.
„Þetta er mjög skemmtilegt, sem kom mér svolítið á óvart. Venjulega er ég einn á vinnustofunni og enginn að fylgjast með mér en fólk gengur hér um og hefur áhuga, spyr mann út í þetta, sem er hvetjandi.“
Rætt var við Matthías Rúnar í Menningunni og má horfa á innslagið hér að ofan.