Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnaráðherra segist hafa meiri áhyggjur af launum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum landsins en launum bæjarstjóra. Endurnýjun í bæjarstjórnum er svo mikil að líkja má við brottfall segir hann. Sigurður Ingi segir að sem persónu og íbúa í landinu þyki honum laun bæjarstjóra og sveitarstjóra há.
Sigurður Ingi ræddi laun bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa í kvöldfréttum í sjónvarpi. Fram hefur komið að laun bæjarstjóra eru í sumum tilfellum um tvær milljónir króna á mánuði.
„Mér sem persónu og íbúa í þessu landinu hefur allt þótt laun bæjarstjóra og sveitarstjóra býsna há. Þá ekki síst í samanburði við aðra sem bera sambærilega ábyrgð eða jafnvel meiri,“ segir Sigurður Ingi. „Við í sveitarstjórnarráðuneytinu höfum meiri áhyggjur af starfskjörum hinna kjörnu fulltrúa. Þess vegna erum við að leggja fram þingsályktun um það. Við köllum eftir samanburði við Norðurlöndin því að endurnýjunin er alltof mikil. Hún er um 50 prósent. Það má jafnvel tala um brottfall.“
Sigurður Ingi er nýkominn af ráðstefnu norrænna sveitarstjórnaráðherra. Þar sé umhverfið þó ólíkt. Þar var talað um umhverfi kjörinna fulltrúa. Þar eru hótanir, ógnanir og jafnvel hatursumræða í vaxandi mæli farin að fæla fólk frá því að taka þátt í störfum kjörinna fulltrúa í nærsamfélögunum. „Ég hef mun meiri áhyggjur af því heldur en endilega laununum hjá bæjarstjórunum. Enda ber ég ekki ábyrgð á því. Það ber hver og ein bæjarstjórn ábyrgð á þeim launum.“