Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er í blússandi gangi um þessar mundir, síðari undankeppnin er í kvöld og úrslitin sem Ísland hefur tryggt sér sæti í eru næstkomandi laugardag.
Ég hef löngum haft blendnar og mótsagnakenndar tilfinningar til þessarar keppni. Hún stendur fyrir margt það sem ég þoli ekki við tónlist; að keppa í henni, að almenningur greiði um hana atkvæði, að norrænt samstarf komi nálægt henni, almennar og óljósar pólitískar staðhæfingar, umgjörð ofar öllu, til að nefna örfátt. En sama hvað ég er á móti þjóðerniskennd í prinsippinu, og þó ég hafi engan áhuga á handbolta horfi ég á hann og öskra á sjónvarpið þegar Íslandi gengur vel, og þegar það er meðbyr í Eurovision dreg ég upp seglin og sveiflast með, því sem næst stjórnlaust.
Þegar það varð ljóst að Hatari tæki þátt var ég viss um að þeir myndu ekki vinna íslensku undankeppnina. Ég hafði fylgst með þeim og var viss um að eitthvað svona skrýtið, hart og oddhvasst myndi aldrei vinna áhorfendakosningu. Fyrst að Botnleðja töpuðu fyrir Birgittu Haukdal gat ekki verið að pönkaða andkapítalíska industrial ljóðarantið í Hatara ætti upp á pallborðið hjá bolnum. En lagið var grípandi og sjónarspilið örvandi, einn harður og annar mjúkur til, gimp að berja risatrommur, leður, gaddar, keðjur, rauður og svartur, heimsendaspámaður í dómsdagskölti með angurværan falsettudjákna sér við hlið, slæma löggan og góða löggan, eins og þær gerast bestar og verstar.
Og viti menn, Hatari sópaði meðalmennskudraslinu, bakraddasöngvurunum, jólatónleikafóðrinu og Abba-tribjút-hyskinu, hinu svokallaða Eurovision-Industrial-Complex , út í hafsauga. Og skyndilega var grjóthörð gjörningasveit með fasíska fagurfræði og öfgafulla satíru orðin að helstu átrúnaðargoðum bolsins og barnanna hans. Allt í einu þurfti Hatari að véla um framtíð sína með vélinni sem hann barðist gegn, og reyna að brjóta ekki í bága við siðferðisstaðla Ríkisútvarpsins.
En til að umbylta kerfum er oft gott að vera partur af þeim, skóflan virkar ekki á skipulagið nema þú grafir undan því innan frá. Hatari birtist mér sem níhílískt eyðileggingarafl kapítalismans sem viðurkenndi þó alltaf að geta ekki flúið undan honum, þeir sögðu að það væri dýrt spaug að útrýma auðvaldinu og til að fjármagna það væri nauðsynlegt að selja nokkra stuttermaboli. En það er samt eitthvað við það hversu mikið þeir hafa verið innlimaðir af kerfinu eftir að þeir fóru út sem mér finnst óþægilegt.
Bókstafurinn geldir margræðnina
Ég var ekki mjög meðvitaður fram að þessu um þá reglu að pólitík væri bönnuð í Eurovision. Markmiðið með keppninni sem fyrst var haldin 1956 virðist hafa verið hið sama og með Evrópusambandinu, að sameina stríðshrjáða Evrópu upp úr rústum síðari heimsstyrjaldar, markmið sem er í eðli sínu pólitískt. En mér finnst það taka bitið úr satírunni að fella grímuna og útskýra hana á blaðamannafundum. Þó að Silvía Nótt hafi ekki komist áfram fannst mér það heiðarlegra að halda sýningunni áfram án þess að depla auga.
Þegar fjölmiðlafulltrúar RÚV eru farnir að grípa fram í á blaðamannafundum og útskýra að lagið snúist í raun og veru um kærleika, þá er bókstafurinn farinn að yfirtaka listina og gelda margræðnina í gjörningnum. Og þó það sé vissulega virðingarvert að orða mjög almennt andstöðu við hernám og landnemabyggðir Ísraelsríkis hefði það verið sterkara að mínu mati að halda sér í karakter og tala fyrir hatrinu, sem hefur sigrað í heiminum undanfarið, og er ríkjandi í stefnu Ísraelsríkis gagnvart Palestínu, til að einmitt varpa ljósi á það.
Steininn hefur svo tekið úr undanfarið þegar öll þau öfl og stofnanir sem að Hatari berst hvað mest gegn fara að nudda sér utan í þá sér til framdráttar. Kapítalisminn gerir það sem hann hefur alltaf gert svo vel, líklega ein af ástæðunum fyrir langlífi hans, að innlima andstöðuna við sig, markaðssetja hana og selja. Fatan mun sigra, gimp-gríma fylgir öllum seldum fötum á KFC meðan byrgðir endast, þú hatar ekki smáborgara frá Hamboragafabrikkunni, Hrísið heimtir alla, fjögurra króna afsláttur á bensíni fyrir handhafa ÓB-lykilsins ef Hatrið sigrar í kvöld. Það fyrirfinnst vart sá snakkpoki sem ekki hefur verið klæddur í leður og gadda af gírugum fingrum markaðsstjóra og auglýsingastofa undanfarna daga.
Valdastofnanir stökkva á vagninn
Þegar prestar þjóðkirkjunnar menningarnema tákn úr anarkisma í aumkunarverðum tilraunum til að sýnast móðins fyrir fermingarbörnum er fyllsta ástæða til að hafa varann á. Eins þegar stjórnmálafræðingur heldur því fram að Hatari sé að framfylgja utanríkisstefnu íslenska ríkisins. Hvað þá heldur þegar Lögreglan birtir mynd af tveimur lögregluþjónum með gaddaólar og yfirskriftinni „Lögin munu sigra“, og apa þannig gagnrýnislaust upp þá fasísku orðræðu og fagurfræði sem Hatari skopstælir, hringurinn kláraður, stofnun sem sér um að framfylgja ofbeldi ríkisvaldsins og nýlega barði niður friðsamleg mótmæli flóttamanna af mikilli hörku, holdgervingur valdsins skreytir sig skyndilega með fjöðrum stjórnleysingja bara því þær eru hip akkúrat núna. Það er írónía af áður óþekktri stærðargráðu.
Ekki það að ég ætli að kenna Hatara um allt þetta. Það er hluti af því að ná miklum vinsældum að óæskilegir fylgihnettir reyna að klína sér utan í misskildan málstað. Og þrátt fyrir allt það sem ég hef sagt hér á undan held ég hiklaust með Hatara, það er mest spennandi Eurovision-atriði sem hefur komið frá Íslandi í háa herrans tíð, líklegast frá upphafi.
Það er mikil innbyrðis spenna í laginu og umgjörðinni sem heldur því lifandi, spenna sem meðal annars orsakast af því sem ég hef útlistað hér á undan. Að Hatari er eins konar glimmerhúðaður Trojuhestur sem er smyglað inn á froðudiskó Eurovision sem annars hefði auðveldlega fótósjoppað yfir grimmilegt hernám og kúgun Ísraelsríkis á Palestínumönnum sem á sér stað einungis örfáa kílómetra frá veislunni.
Performansinn á þriðjudagskvöldið var rafmagnaður gjörningur þar sem valdbeiting og undirgefni vógu salt, blásið var í herlúðra og kveikt í kapítalinu, trommur kerfisins barðar, hlekkir hugarfarsins slípaðir, og varpað rauðsvörtum skuggum á uppgang hatursins í álfunni sem Eurovision kennir sig við.
Usli í úrslitunum?
Samt finnst mér framgangan milli æfinga fram að þessu helst til máttlaus, of mikil hlýðni. Ég ætla ekki að krefjast þess, eins og annar pistlahöfundur á þessum vettvangi gerði í gær, að þeir dragi sig úr keppni – þó mér fyndist það virðingarverð afstaða. En ef Hatari flytur bara lagið eins og æft var og lendir kannski í sjöunda sæti væri það einhvern veginn ekki fullnægjandi í mínum huga. Þeir hefðu tapað einhverju ef róttæknin næði ekki lengra en svo að rífa kjaft á fyrsta blaðamannafundi og koma svo með múlbundnar almennar rýnihópaprófaðar yfirlýsingar það sem eftir er.
Eurovision er hömlulaust svall og svikul tálsýn, tómið heimtir hana eins og allt annað á endanum. En það er allavega gott að einhver þori að segja það upphátt. Ég lýsi yfir stuðningi við Hatara og óseðjandi tómið sem keppir fyrir Íslands hönd í Tel Aviv á laugardagskvöld, en á sama tíma vona að þeir valdi einhverjum usla í úrslitunum sem fari út fyrir þægindaramma Ísraelsríkis, Jon Ola Sand og bandalags evrópskra sjónvarpsstöðva.