„Það er óhemjumikil vinna lögð í gjörninginn sem er í raun þriggja mínútna leikhús. Það er hiti fyrir Hatara hér og fólk stendur með þeim,“ segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir kvikmyndagerðakona sem er stödd í Tel Aviv þar sem hún vinnur að heimildarmynd um hópinn ásamt Baldvin Vernharðssyni. Hún segir að Hatari muni, hvernig sem fer, standa uppi sem sigurvegari fyrir að þora að setja sín mál á dagskrá og láta í sér heyra.

Á meðal þeirra sem eru í föruneyti Hatara úti í Tel Aviv um þessar mundir er Anna Hildur Hildibrandsdóttir sem stendur í ströngu við að festa á filmu það sem drífur á daga hópsins í keppninni, en heimildarmyndina vinnur Anna með Baldvin Vernharðssyni kvikmyndatökumanni. Síðastliðið föstudagskvöld var sýndur á RÚV heimildarþáttur eftir Önnu Hildi sem bar nafnið Hatari - fólkið á bak við búningana, en í þættinum fengu áhorfendur að kynnast nýrri og grímulausari hlið á liðsmönnum hópsins. Myndin sem Anna og Baldvin eru að gera núna er þó mun stærri í sniðum en hún er framleidd með alþjóðamarkað í huga. Það má segja að þátturinn sem sýndur var á föstudag hafi verið uppklapp fyrir stóru myndina. Myndin er framleidd af Tattarrattat sem er fyrirtækið Önnu sem hún á með Iain Forsyth og Jane Pollard sem leikstýrðu 20.000 Days on Earth með Nick Cave sem náði miklum vinsældum árið 2014  en myndin vann til verðlauna á Sundance kvikmyndahátíðinni og var tilnefnd til Bafta verðlauna. Þetta er fyrsta leikstjórnarverkefni Önnu fyrir utan þáttinn sem sýndur var á föstudag en hún nýtur stuðnings afar reyndra framleiðenda sem leggja mikið upp úr gerð myndarinnar.

Sagan skrifar sig á hverjum degi

Anna hefur fylgt hópnum eftir frá lokakvöldinu á Íslandi þegar Hatari bar sigur úr bítum og ljóst varð að næsti áfangastaður þeirra væri sjálf Eurovision-keppnin í Tel Aviv. Anna Hildur býr erlendis en ákvað um leið og hún áttaði sig á því að Hatari ætti góða möguleika í undankeppninni að fljúga heim til að fylgjast með hópnum. „Við áttuðum okkur á því í framhaldinu ég og Baldvin tökumaður að þetta gæti orðið alþjóðleg mynd. Nú sjáum við til hvert sagan leiðir okkur en hún skrifar sig á hverjum degi og við vitum aldrei hvað gerist næst,“ segir Anna Hildur en hverjum degi fylgja óvæntar uppákomur og það er engin lognmolla í kringum hópinn.

Kynslóð sem krefst breytinga í heiminum

Anna Hildur segist fyrst hafa heyrt af Hatara þegar eiginmaður hennar og nú umboðsmaður hljómsveitarinnar, Gis von Ice, fór á tónleika með þeim og sagði henni að þeir hefðu verið „sturlaðir.“ Anna ákvað í kjölfarið að skella sér á tónleika með sveitinni en hún þekkti fyrir Einar, trommugimp hópsins, sem er líka í hljómsveitinni Vök sem Gísli er einnig umboðsmaður fyrir. „Maður sér svona pólitískt mótmælaband ekkert mjög mikið. Þetta endurspeglar hreyfingu af yngri kynslóðinni sem er að koma fram með sterka rödd og krefjast breytinga í heiminum.“

Um heimildarþáttinn sem sýndur var á föstudag segir Anna Hildur að hugmynd hafi kviknað um að gera lítinn þátt sem myndi gefa tóninn fyrir stóru myndina sem nú er í vinnslu. „Við tókum viðtöl við hópinn strax eftir sigurkvöldið því okkur langaði að sýna þessa hlið á þeim. Þau sögðu okkur hvernig þeim leið og hvaða væntingar þau gerðu til ferðarinnar. Þetta var stór ákvörðun fyrir hópinn, bæði að taka þátt í Söngvakeppninni en líka í kjölfarið að taka gjörninginn alla leið.“

Hatari í essinu sínu í Tel Aviv

Anna Hildur segist ekki vera hissa á sterkum viðbrögðum alþjóðlegu pressunnar. „Þau skera sig algjörlega úr hér úti. Þau eru öðruvísi en allir og þau einu sem eru að setja mannréttindamál á dagskrá með afgerandi hætti. Það eru ströng lög í Ísrael sem banna ákveðna hluti sem þau dansa á línunni með.“ Anna bendir á að þó að keppnin eigi að vera ópólitísk þá snúist hún samt um frið sem er pólitískt mál í sjálfu sér.

„Hatari gengur út á þessar þversagnir og því eru þau í essinu sínu í svona umhverfi. Þau fá að vera þversagnakenndur listgjörningur í þversagnakenndu ástandi,“ segir Anna. Hún segir að Hatari hafi staðið við gefin loforð um að nýta sér dagsrkárvaldið. Þau hafa nýtt tíma sinn úti í að kynna sér málin og farið í heimsóknir til Palestínu að kynnast fólkinu þar og við hvaða aðstæður þau búa. „Það er ómetanlegt að fá að fylgjast með þessu ferli á meðan það er að gerast. Sannkallaður draumur heimildarmyndagerðamannsins.“

Hatrið mun sigra

Anna Hildur segist telja Hatara nokkuð örugg með að fljúga upp úr riðlinum annað kvöld. „Þetta er atriði sem heillar fólk og það er mikill hiti fyrir þeim. Fólk stendur með þeim. Það er líka óhemjumikil vinna lögð í þennan gjörning sem er þriggja mínútna leikhús.“

Anna segir þó að það sé alveg sama hverig fer, Hatari muni alltaf standa uppi sem sigurvegari. „Þau hafa vakið athygli, sett mál á dagskrá og staðið við sín loforð. Í því felst sigurinn í þeirra atriði. Síðan eru þau mjög ákveðin í að þau ætla á svið og þau ætla langt í þessu og ég spái því að þau geri það.“

Björg Magnúsdóttir ræddi við Önnu Hildi í Morgunútvarpinu og hægt er að hlýða á innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.