Hatari hélt sinn fyrsta blaðamannfund í Expó höllinni í Tel Aviv í dag að fyrstu æfingu lokinni. Fjöldi blaðamanna mætti og augljóst er að áhugi á atriðinu er mikill.

Lungann úr fundinum fengu þeir Matthías Haraldsson og Klemens Nikulásson Hannigan talsmenn sveitarinnar auðveldar spurningar frá spyrlinum en þegar síga fór á seinni hlutann var opnað fyrir spurningar úr sal. Fjölmargir blaðamenn vildu spyrja sveitina bæði út í sviðssetningu þeirra, fyrstu æfinguna en einnig út í hið pólitíska og eldfima ástand sem ríkir hér fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Spyrillinn vildi heldur beina umræðunum út í léttari sálma og hugðist vísa Höturum af sviði áður en þeir náðu almennilega að svara. Þeir stóðu fastir á sviðinu, þó Hatrið mun sigra hafi ómað hátt, héldu þeir áfram að tala um málefni Ísraels og Palestínu og beindu athyglinni sérstaklega að landnemabyggðum Ísraela á hernumdum svæðum Palestínu. 

„Við myndum vilja sjá enda á hernáminu eins fljótt og auðið er þannig að friður mun ríkja. Við erum vongóð,“ sagði Matthías Tryggvi Haraldsson að endingu