Ríkislögreglustjóri þarf að útskýra hvað hann á við þegar hann segir spillingu ríkja innan lögreglunnar, segir verðandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem íhugar að kalla hann fyrir nefndina.
Átökin innan lögreglunnar hafa magnast eftir viðtal sem birtist við Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra, í Morgunblaðinu í gær.
Í viðtalinu sagðist Haraldur telja að gagnrýni á embættið sé liður í rógsherferð sem ætlað sé að koma honum úr embætti og að óhæfir starfsmenn valdi ólgu og óróa. Ef til starfsloka kæmi myndi það kalla á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin og gaf sömuleiðis í skyn að spilling fái að viðgangast innan lögreglunnar.
Loks svaraði hann umkvörtunum sérsveitarinnar á þann veg að óánægja þar sé til komin vegna þess að hún hafi ekki fengið sínu framgengt og tímabært sé að fá fagaðila til að gera athugun á sveitinni.
Lögreglustjórar gáttaðir
Lögreglustjórar sem fréttastofa ræddi við í dag sögðust gáttaðir yfir ummælum ríkislögreglustjóra. Þeir töldu ekki rétt að tjá sig opinberlega en Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélagsins, segir að lögreglustjórar landsins komi saman til fundar á morgun þar sem atburðarás síðustu daga og umrætt viðtal verða til umræðu.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem að öllum líkindum verður kjörin formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á morgun, segir ummæli ríkisslögreglustjóra umhugsunarverð.
„Það er auðvitað eðlilegt að ríkislögreglustjóri tilkynni það til þar til bærra yfirvalda viti hann af spillingu innan lögregluembættisins."
Telurðu þörf á því að kalla hann fyrir nefndina til að útskýra ummæli sín frekar?
„Mér finnst það vel skoðandi, það þarf að skoða um hvað hann er að tala þegar hann segir að spilling þrífist innan lögreglunnar og hann ætli ekki að segja frá því nema að hann verði fyrir einhvers konar afleiðingum. Mér finnst það lykta af einhvers konar samtryggingarfíling að „ég skal ekki segja frá ef ég fæ að halda minni stöðu“," segir Þórhildur Sunna.
22 ár kannski bara ágætur tími
Dómsmálaráðherra hefur sagt til skoðunar að bjóða Haraldi starfslokasamning en sjálfur segist Haraldur ætla að ljúka skipunartíma sínum sem rennur út eftir þrjú ár. Aðspurð hvort hún telji að sú leið kunni að höggva á hnútinn segist Þórhildur Sunna efins því vandi lögreglunnar virðist djúpstæður.
„22 ár í embætti virðist líka bara ágætur tími en ég tel ekki að það hjálpi til nema að því leyti að þá losni um málbeinið hjá ríkislögreglustjóra eins og hann virðist vera að boða. Mér finnst líka að hann eigi ekki að þurfa starfslokasamning til þess að hann segi okkur frá því sem hann telur vera alvarlega misbresti innan lögreglunnar.“
Ekki hefur náðst í Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, vegna málsins í dag.