„Bókin fjallar um það hvaða leiðir er hægt að fara að því að gera allt vitlaust í viðkvæmum samtíma,“ segir Eiríkur Örn Norðdahl um skáldsöguna Hans Blæ sem er frá árinu 2018 og vakti deilur strax áður en hún kom út. Í viðtali í Víðsjá ræddi Eiríkur Örn um viðtökurnar, hina óþolandi aðalpersónu verksins en einnig sérstakan frásagnarhátt bókarinnar.

Í bókinni segir frá Hans Blævi, sem áður var Ilmur Þöll. Hán er nettröll og samfélagsmiðlastjarna og neitar að festa sig við neina eina skilgreiningu á sjálfu sér - nema kannski það að vera frjálst. Hans Blær er 34 ára og býr í einni af nýju íbúðunum í miðbæ Reykjavíkur sem eru allar eitt rými, með risagluggum með útsýni yfir hafnarsvæðið, Esjuna og Hörpu. Hán fer í ræktina, sund og jóga, er með brunnið nefhol af kókaínnotkun, gengur að jafnaði um átta þúsund skref á dag ef eitthvað er að marka símtækið - og er alltaf „skrefi á undan“. Í lýsingu á Hans Blævi fremst í bókinni segir jafnframt: „Hans Blær hefur skipt um kyn oftar en tölu verður á komið, leiðrétt kyn sitt að minnsta kosti jafn oft, logið til um það, snúið upp á það, klætt sig í trássi við sitt sýndarkyn, hafnað öllum sýndarskilgreiningum og sagt sig „á rófinu“ einsog kyngervi væri bara eitthvað sem maður hefði að áhugamáli, keypti í dótabúð einsog vatnsbyssur og víbradora, alltaf að troða í sig litríkidæminu og alltaf á fúllspítt ferð til að komast á kaf í eitthvað, hvað sem er, rassa, píkur, þrengri buxur, æsilegri ævintýr.“

Gestir í sunnudagsþætti Bókar vikunnar eru bókmenntafræðingarnir Ásta Kristín Benediktsdóttir og Soffía Auður Birgisdóttir. Umsjón hefur Auður Aðalsteinsdóttir.