Ragnar Sigurðsson, varnartröll íslenska landsliðsins, var undir smásjánni í Sportrásinni í gær. Ragnar er lykilmaður í vörn liðsins og verður án vafa í íslenska liðinu í fyrsta leik lokamótsins í Frakklandi gegn Ronaldo og löndum hans í portúgalska landsliðinu. Kristján Guðmundsson, þjálfari Leiknis í knattspyrnu lagði mat á leikmanninn og æskufélagar Ragnars, Albert Brynjar Ingason og Allan Sigurðsson, rifjuðu upp sögur af honum ásamt unnustu hans, Ragnheiði Theodórsdóttir.

„Hann söng I want it that way með Backstreet boys ásamt nokkrum öðrum á Skrekk í áttunda eða níunda bekk,“ sagði Allan Sigurðsson æskuvinur og tónlistarfélagi.

Ragnar er nokkuð fær tónlistarmaður,  lunkinn á gítar og píanó og góður söngvari en hann syngur lítið fyrir unnustuna. „Hann er náttúrulega mjög duglegur og einstaklega fallegur“ segir unnusta Ragnars, Ragnheiður Theodórsdóttir.

„Við erum miklir tölvunördar og spilum mikið tölvuleiki í gegnum netið og á öllum þessum árum sem hann hefur búið úti þá höfum við tekið einn leik í fótbolta því ég vann þann leik. Hann ásakaði mig um að hafa verið að tefja síðustu fimm mínúturnar og sagðist aldrei ætla að spila aftur við þig fótboltaleik á netinu og það varð raunin,“ sagði Albert Brynjar Ingason en hann laumaði mörgum skemmtilegum sögum af Ragnari í þessa nærmynd.

Ragnar Sigurðsson er fæddur í Reykjavík 19. júní 1986. Hann er miðvörður og spilaði sinn fyrsta A-landsleik árið 2007. Ragnar hóf meistaraflokksferilinn með Fylki árið 2004 en hefur síðan spilað með IFK Gautaborg í Svíþjóð og FC Kaupmannahöfn í Danmörku en leikur nú með FC Krasnodar í Rússlandi.