Einn af ástsælustu lagahöfundum og söngvurum þjóðarinnar fagnaði sjötíu ára afmæli sínu í gær. Jóhann Helgason á afar ríkan og farsælan feril að baki. Jón Ólafsson segir hann vera okkar eigin Paul McCartney.

Tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn Jóhann Helgason þekkja flestir landsmenn fyrir fjölmörg laga hans sem lifað hafa með þjóðinni. Jóhann starfaði alllengi með félaga sínum Magnúsi Þór Sigmundssyni, sem dúettinn Magnús og Jóhann, Pal brothers og í hljómsveitinni Change en einnig á Jóhann þekkt lög í flutningi annarra listamanna og hljómsveita eins og Brunaliðsins, Start, Vilhjálms Vilhjálmssonar og Hauks Morthens. Flestar perlur Jóhanns og fleiri til verða fluttar á afmælistónleikum honum til heiðurs í Hörpu í október

„Fyrir mér er hann tímalaus og eilífur, svona eins og tónlistin hans,“ segir fjölmiðla- og tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson. „Hann er svona ásamt Gunnari Þórðar, hálfgerður Paul McCartney okkar Íslendinga. Ég hef svona verið að grínast með það að ef að hann hefði fæðst í Bandaríkjunum þá hefði hann örugglega endað í Beach Boys eða álíka hljómsveit, því hann er með ótrúlegt eyra fyrir grípandi laglínum,“ segir Jón sem hefur hlustað á tónlist Jóhanns frá því hann var krakki. Jón segir frábært að fylgjast með Jóhanni og að hann sé í frábæru formi. „Mér finnst bara ótrúlegt að hugsa til þess að hann sé sjötugur þessi maður,“ segir Jón.

Jón segir Jóhann einstakan og skemmtilegan mann þó hann virðist dulur. „Hann leynir á sér, er rosalegur húmoristi en hann er bara svo hlédrægur. Hann er svo feiminn þannig að það getur tekið smá tíma að ná í gegn,“ segir Jón sem hefur unnið talsvert með Jóhanni. „Hann hreykir sér aldrei, talar aldrei illa um neinn og einhvern veginn heldur bara sínu striki. Svo á hann svo flottan Jaguar, með stýrið hægra megin, sem hann krúsar á í gegnum bæinn. Þetta er bara ótrúlegur listamður, ég er einmitt að fara að spila með honum á tónleikunum í október og ég bara get ekki beðið,“ segir Jón.

„Ég veit það nú ekki en þau skipta auðvitað hundruðum,“ segir Jón aðspurður að því hversu mörg lög Jóhann hafi samið í gegnum tíðina. „Ég gerði svona lagalista í morgun í tilefni afmælisins og það tók mig þrjár mínútur að gera þrjátíu laga lista þar sem fólk þekkir nánast hvert einasta laga á þessum lista. Söknuður, Í Reykjavíkurborg, þetta er bara endalaust af lögum. Mary Jane, Sail on, She's Done it Again, þetta er allt stöff á heimsmælikvarða,“ segir Jón sem vann sérstakan lagalista með lögum Jóhanns fyrir Félag tónskálda og textahöfunda á Spotify, sem fylgir hér að ofan.

Þó svo að flestir þekki lög Jóhanns vill Jón meina að lítið fari fyrir Jóhanni í íslenskri menningu. „Mér finnst að það ætti alla vega að reisa af honum styttur í flestum póstnúmerum,“ segir Jón og ítrekar þó að íbúar Reykjanesbæjar séu vissulega stoltir af sínum manni. „Þeir eru duglegir að hampa þessum höfundum en ég held að restin af landinu mætti vera duglegri við það. Þetta er kannski það sem ég hef verið að gera í sjónvarpsþáttunum mínum og dagskránni í Salnum - að vekja athygli á hversu miklar gersemar þessir listamenn eru,“ segir Jón Ólafsson sem fagnar sjötugum Jóhanni Helgasyni.