Karlmaður á sextugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna tilraunar til nauðgunar og frelsissviptingar á heimili hans í Vesturbæ Reykjavíkur. Maðurinn var handtekinn í nótt.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á sunnudag. Þetta staðfestir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan verst frétta af málinu en samkvæmt heimildum fréttastofu hélt maðurinn 25 ára gamalli konu á heimili hans í Vesturbænum í minnst tíu daga, gaf henni eiturlyf og misnotaði hana kynferðislega. 

Farið hafi verið með stúlkuna á bráðamóttöku á aðfangadag. 

Eftir því sem fréttastofan kemst næst hefur maðurinn ekki áður hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot. Hann hefur í gegnum tíðina gegnt ábyrgðastöðum innan stjórnsýslunnar.