Menntamálaráðherra vill hefja viðræður við Dani um að þeir afhendi fleiri íslensk handrit. Ástæðurnar eru ýmsar, meðal annars dvínandi áhersla Dana á rannsóknir íslenskra handrita en áður. Þá glittir loks í Hús íslenskra fræða, en sumum þykir að Íslendingar hafi ekki hýst menningararfinn með tilhlýðilegri virðingu til þessa. Forstöðumaður Árnastofnunar segir ætlunina ekki að stofna til illdeilna við Dani um íslensku handritin - enda eru þau öll í raun í eigu gömlu herraþjóðarinnar.
„Heiðruðu vinir og frændur, stígið heilir á storð!"
Þannig bauð Jóhann Hafstein forsætisráðherra Dani velkomna, þegar þeir afhentu Íslendingum fyrstu handritin 21. apríl árið 1971. Þau höfðu verið varðveitt í Danmörku alveg frá því að Árni Magnússon ánafnaði Hafnarháskóla safn sitt á átjándu öld. Í vörslu Árnastofnunar í Reykjavík eru nú alls 1.666 handrit og handritshlutar, um 7.360 fornbréf auk 141 handrits úr Konungsbókhlöðu; en um 700 íslensk handrit urðu eftir í Kaupmannahöfn, þar á meðal Heimskringla Snorra Sturlusonar.
Engar deilur við Dani
Nú hefur Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra viðrað þá hugmynd að endurheimta fleiri handrit úr vörslu Dana. Guðrúnu Nordal forstöðumanni Stofnunarinnar líst vel á hugmyndina.
„Við erum ekki að fara í neinar deilur við Dani. Við erum bara að fara í samræður og átta okkur á því hvernig við högum þessum málum til framtíðar," segir Guðrún.
Það var deilt um þetta á sínum tíma? Hluti af gamla samningnum er að Íslendingar muni ekki fara fram á að fá fleiri handrit, og þetta mál fór fyrir hæstarétt í Danmörku á sínum tíma. Þessar tvær þjóðir hafa tekist á um handritin?
„Þetta var mjög hatrömm deila og mjög erfið pólitísk deila. Það voru mjög margir Danir sem vildu að við fengjum öll handritin heim. Danska þjóðin var klofin í þessu máli. Það voru ekki allir sammála um þessa lausn sem fannst."
Háskólinn í Kaupmannahöfn leit á handritin sem sína eign?
„Já, málið var útkljáð þannig að við varðveitum handritin hér, við eigum þau ekki. Það var niðurstaðan í Hæstarétti. En þetta er auðvitað löngu liðið, og við erum ekki að fara í deilumál. Og ég held að það sé mjög mikilvægt að maður finnur það bara í viðbrögðum Dana að þeir vilja gjarnan setjast niður," segir Guðrún.
Lektorsstaðan lögð niður
Samkvæmt hæstaréttardómnum er Árnanefnd við Kaupmannahafnarháskóla hinn raunverulegi eigandi íslensku handritanna. Hluti þeirra er hinsvegar varðveittur hér á Íslandi.
Fyrr á þessu ári ákvað stjórn Kaupmannhafnarháskóla að staða lektors við Árnasafn við háskólann, sem er systurstofnun Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, skyldi lögð niður. Gottskálk Jensson, sem áður gegndi stöðu prófessors við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hefur gegnt stöðunni síðustu ár. Hann segir að starfsfólki við rannsóknir á Árnasafni hafi verið fækkað úr níu í þrjá á undanförnum sextán árum. Hann telur að samband sé á milli þess að Kaupmannahafnarháskóli hafi dregið úr áherslu sinni á íslensku og norræn fræði, og þess að íslensk stjórnvöld vekja máls á því að fá fleiri handrit afhent.
„Já, ég ímynda mér það, og finnst það ekkert óeðlilegt í raun og veru," segir Gottskálk, sem var sagt upp í sumar, en starfar enn sem fræðimaður á Árnasafni. „En nú hefur háskólinn sýnt sig viljugan til að semja um áframhaldandi starf mitt ef fjármögnun berst frá Íslandi. Rætt er um að íslenska ríkið kosti rannsóknarstöðu í Kaupmannahöfn til að rannsaka íslensk handrit og stunda íslensk fræði. Og það er auðvitað eitthvað nýtt og hefur aldrei verið þannig áður. Og þá vaknar einmitt sú spurning: Hvers vegna að hafa íslensku handritin í Kaupmannahöfn ef íslenska ríkið þarf að leggja út fyrir rannsóknum á þessum handritum í Kaupmannahöfn? Það er mjög líklega ástæðan að baki þess að menntamálaráðherra telur að nú sé tími til að endurskoða skiptingu handritanna."
Lilja Alfreðsdóttir tók í raun í sama streng í dag, þegar hún undirritaði verksamning um byggingu húss íslenskra fræða.
„Við munum núna getað varðveitt handritin betur en áður. Það eru líka breyttir tímar á alþjóðavísu þar sem menningarverðmætum er skilað í ríkari mæli til upprunaríkis. Svo að auki hafa verið vandkvæði á fjármögnun á lektorsstöðunni við Kaupmannahafnarháskóla. Þannig að ég segi: Við erum tilbúin að taka á móti fleiri handritum," sagði Lilja.
Lánið á Snorra-Eddu kveikti áhugann
Guðrún telur hins vegar ekki að lektorsstaðan sé ástæðan fyrir þessum áhuga á að fá fleiri handrit til Íslands.
„Nei, ég tel það ekki," segir Guðrún. „Ég held að þetta mál hafi byrjað í fyrra, þegar við fengum tvö handrit lánuð hingað heim, Snorra-Eddu handrit mjög merkt og Reykjabók Njálu, elsta heillega handrit Njálu. Margir hugsuðu þá: Urðu svona mörg handrit eftir í Kaupmannahöfn? Það hafði fennt yfir málið og margir höfðu samband og spurðu hvort við ættum ekki að fá fleiri handrit heim. Ekki endilega öll 700, en eigum við að fá einhver handrit heim?"
Guðrún segir ætlunina ekki að loka handritin af.
„Við leggjum áherslu á þennan arf. Okkar vinna hér og þetta mikla hús sem á að fara að byggja utan um stofnunina og íslenskudeild HÍ og handritin - og íslenskuna í víðum skilningi - þetta eru sterk skilaboð um að við viljum gera miklu betur."
Við höfum ekki gert nógu vel við handritin okkar til þessa.
„Nei, við höfum beðið lengi eftir þessari byggingu," segir Guðrún. „Það hefur tekið tíma að koma þessu áfram. Við höfum ekki gefist upp á þeim draumi og nú er þetta komið þangað að við vorum í dag að fagna undirritun verksamnings á byggingarstað. Samtal við Dani um þetta er bara mjög spennandi. Og ég hlakka til að ræða þetta við þau í vináttu."