Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að „máttleysisleg loftslagsáætlun ríkisstjórnar Íslands fái algjöra falleinkun“ í ræðu sinni í eldusdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Í ræðu sinni gerði hún loftslagsmál og aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum barna meðal annars að umtalsefni sínu.
Hún hvatti stjórnmálamenn til að sýna hugrekki og leggja gunn að hagvexti em væri kolefnislaus því hlýnun jarðar væri ógn sem stöðugt verður áþreifanlegri og ágengari. Kraftmikla stjórnmálamenn þyrfti til að leiða róttækar aðgerðir.
„Hamfarahlýnun spyr ekki um landamæri og engin þjóð getur lýst yfir hlutleysi í stríðinu við hana.“
Hún sagði að unga fólkið gerði þá kröfu að stjórnmálamenn leiði breytingar sem virka. „Þeirra er framtíðin - en aðeins ef við stöndum í lappirnar gegn stundargróða og sérhagsmunum og tökum stór græn skref fyrir börnin okkar og barnabörn.“
Þá vakti Oddný athygli á ofbeldi gegn börnum. Hún gagnrýndi þátttöku stjórnvalda í „feluleiknum“ og það að fullnægjandi eftirlit væri ekki til staðar.
„Það er ekki nóg að skipta nafni húsnæðisráðherra út fyrir barnamálaráðherra eins og gert var á dögunum. Raunverulegra aðgerða er þörf. “
Hún sagði jafnframt að sinnuleysi gætti víðar hjá stjórnvöldum um málefni barna því skortur væri á skýrri leiðsögn, skilvirku skipulagi og heildstæðri stefnu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Allt of mörg börn bíði greiningar og hjálpar.
Þá vakti hún máls á þeim málum er bíða afgreiðslu þingsins en eitt þeirra er að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Ekki yrði farið í sumarfrí án þeirrar réttarbótar fyrir fatlaða Íslendinga.