Hallelúja-kórinn úr Messíasi eftir Georg Friedrich Händel. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómeyki, Mótettukór Hallgrímskirkju og Söngsveitin Fílharmónía. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.
Árni Heimir Ingólfsson skrifar:
Messías er ótvírætt kunnasta óratorían sem Georg Friedrich Händel (1685–1759) samdi á löngum og glæsilegum ferli. Að mörgu leyti er hún hefðbundið verk – í henni eru forleikur, aríur, söngles og kórþættir – en hún sker sig þó úr bæði hvað varðar efni og efnistök. Flestar óratoríur Händels eru leikrænar, í þeim bregða einsöngvarar sér í tiltekin hlutverk og eiga í samskiptum sín á milli. Messías er aftur á móti ljóðræn hugleiðing um það hvernig mannkynið frelsaðist fyrir son Guðs. Í verkinu eru engar persónur, engin hlutverk.
Hallelúja-kórinn er vafalaust það frægasta sem Händel festi nokkru sinni á blað og hefur skapast fyrir því hefð að áheyrendur rísi á fætur meðan á flutningi hans stendur. Sagt er að sá siður sé til kominn vegna þess að Georg II Bretakonungur hafi staðið upp á þessu augnabliki þegar verkið var flutt í Lundúnum og því hafi aðrir gestir séð sig knúna til að gera slíkt hið sama. Ekki eru þó traustar heimildir fyrir sögunni og óvíst að konungur hafi nokkru sinni verið viðstaddur þegar Messías var sunginn og leikinn.