Öllum kirkjuklukkum landsins verður hringt samtímis klukkan korter yfir sjö í fyrramálið, til þess að hvetja landsmenn til þess að vakna til vitundar um vímuefnaneyslu ungmenna. Ágóða átaksins Á allra vörum verður að þessu sinni varið til forvarnarstarfs í grunnskólum.

Einar Darri Óskarsson lést í maí í fyrra, eftir neyslu róandi lyfja. Hann var aðeins 18 ára. Eftir að hann lést stofnuðu fjölskylda hans og vinir minningarsjóðinn Eitt líf sem hefur unnið að forvörnum í grunnskólum landsins. Í dag var þjóðarátakinu Á allra vörum hleypt af stokkunum í níunda skipti og um leið tilkynnt að Eitt líf fengi allan ágóðann af frjálsum framlögum og sölu á sérstökum varasettum í átakinu.

„Þetta mun klárlega breyta öllu hjá okkur og framhaldinu á okkar forvarnarvinnu. Við erum að fara inn í grunnskóla og nú getum við haldið ötul áfram,“ segir, Bára Tómasdóttir, móðir Einars Darra og einn aðstandenda Eins lífs.

Að taka á eftirspurninni

Á meðal þeirra sem styðja við bakið á verkefninu eru Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, menntamálaráðuneytið, embætti landlæknis og íslenska þjóðkirkjan.

Hver verður aðkoma kirkjunnar að þessu verkefni?

„Það verður til dæmis það, fyrir utan að vekja athygli á þessu, að hringja kirkjuklukkum landsins klukkan 7:15 í fyrramálið undir kjörorðinu „vaknaðu“,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Á kynningarfundi átaksins í Hallgrímskirkju í dag var frumsýnd ný auglýsing undir kjörorðinu „Vaknaðu!“.

„Við erum að sjá mörg alvarleg mál og þetta snertir mjög margar fjölskyldur,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. „Og það virðist vera alveg sama hvað tollur og lögregla gerir, við erum að taka framleiðslumál, við erum að taka innflutningsmál, og það er verið að leggja mikinn kraft í starfið. En það er bara mjög mikið framboð og samfélagið allt þarf að taka á þessari eftirspurn.“

„Það sem við erum að gera er að við erum að vekja athygli á þessu í skólum landsins og kennarar skipta þar auðvitað gríðarlegu máli, þeir eru auðvitað í mikilvægasta starfinu, og ég er meðal annars að taka þátt í þessu vegna þess,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.

Alma Möller landlæknir segir að átak sem þetta geti skipt sköpum.

„Við vitum að 11% krakka í tíunda bekk hafa prófað róandi lyf sem var ekki ávísað á þau sjálf. Og 1,5% örvandi lyf. Og þau halda oft að þessi lyf séu saklausari en ólöglegu vímuefnin en það er svo sannarlega ekki. Hálf tafla getur dugað til að draga ungmenni til dauða,“ segir Alma.