Stjórnarmyndunarviðræður gengu vel í dag, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Forystufólk Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks hittust á heimili Sigurðar Inga í dag í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi.
„Sumt hefur skýrst verulega en annað er í umræðuferli, eins og gengur,“ segir Sigurður. Hópurinn ætlar að hittast aftur á morgun og halda viðræðum áfram. Sá fundur verður á höfuðborgarsvæðinu. Sigurður Ingi kveðst nokkuð bjartsýnn á að flokkarnir fjórir nái saman um málefni. „Það eru samt auðvitað einhverjir hlutir sem við annað hvort þurfum að ræða okkur betur niður á hvernig við útfærum og hvort þau séu á borðinu eður ei,“ segir Sigurður Ingi. Rætt var við hann í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Ef ríkisstjórn þessara flokka verður mynduð er mikilvægt að hún einhendi sér í verkefni sem sameina þjóðina, málin sem fólk ræðir við eldhúsborðið; uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntamál og samgöngur, segir Sigurður. Uppbyggingarstjórn eigi að snúast um þessi mál sem mikið hefur verið talað um undanfarin ár og fólk orðið langeygt eftir að gangi upp, að mati Sigurðar.
Aðspurður að því hvers vegna forystufólk Framsóknarflokks ákvað að hefja viðræður við vinstri flokka en ekki þá sem eru hægra megin, segir Sigurður að flokkarnir fjórir sem nú eiga í viðræðum hafi átt ágætt samstarf um uppbyggingarmál í stjórnarandstöðu. „Í fyrstu viðræðum kom í ljós að þau mál sem við lögðum áherslu eiga ágætis hljómgrunn með hinum flokknum. Við getum kannski komið þeim lengra áleiðis í þessari stjórn.“
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.