Þrotabú WOW air sakar Icelandair um að hafa beitt skaðlegri undirverðlagningu og hefur stefnt flugfélaginu fyrir brot á samkeppnislögum. Icelandair hafnar þeim ásökunum en sjö ár eru síðan málið fór til Samkeppniseftirlitsins.

Stefnan er byggð á frummati Samkeppniseftirlitsins á verðlagningu Icelandair sem birt var flugfélaginu árið 2015. Í stefnunni kemur fram að Icelandair hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með skaðlegri undirverðlagningu og verðlækkunum til fimm áfangastaða á fimm ára tímabili.

„Eftirlitið hefur sem sagt ekki ennþá lokið afgreiðslu málsins en tli þess að gæta hagsmuna kröfuhafa til hins ýtrasta þá ákváðu skiptastjórar þrotabúsins að höfða þetta mál til viðurkenningar á bótaskyldu Icelandair gagnvart þrotabúi Wow air,“ segir Stefán Geir Þórisson, lögmaður þrotabús WOW air.

Þrotabúið segist ætla að rannsaka frekar hvort Icelandair hafi framið fleiri samkeppnisbrot sem valdið hafi WOW air tjóni. Icelandair hafnar öllum ásökunum.

„Við skiluðum greinargerð í nóvember árið 2015 og höfum síðan ekkert heyrt í rúmlega fjögur ár og höfum því gert ráð fyrir því eðlilega að Samkeppniseftirlitið hafi verið sammála okkar málflutningi. Þannig horfum við á málið og við erum þegar búin að skila inn greinargerð vegna þessarar stefnu til héraðsdóms þar sem við mótmælum málatilbúnaði þrotabúsins,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Málið kom á borð Samkeppniseftirlitsins fyrir nærri sjö árum. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að eftir að sjónarmið voru fengin frá flugfélögunum og miklar breytingar urðu á flugmarkaði hafi verið ákveðið að málið væri ekki í forgangi, og því hafi því ekki lyktað þrátt fyrir langan málsmeðferðartíma.

„Það þarf ekkert endilega að vera óheppilegt að samkeppnisyfirvöld hafi í einhverjum tilteknum málum ekki gripið inn í eða komist að endanlegum niðurstöðum. En það væri auðvitað best ef Samkeppniseftirlitið hefði svigrúm til að leiða miklu fleiri mál til lykta og þyrfti ekki að forgangsraða eins mikið og það þarf að gera í dag,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.