Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, segir að félagið viti um sviðsettar uppsagnir í kjölfar þess að fólk tilkynnir óviðeigandi hegðun annarra starfsmanna. FKA sendi frá sér yfirlýsingu í gær og sagðist standa með Áslaugu Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanni einstaklingsmarkaðar, hjá Orku náttúrunnar.
Stjórn FKA fjallaði um uppsögn Áslaugar Thelmu í gær og lýsti síðan yfir vanþóknun á því hvernig staðið var að málinu innan Orkuveitunnar. Í tilkynningu frá félaginu segir að það sé algjörlega óviðunandi, eftir alla þá umræðu sem #metoo skapaði, að ekki sé staðið faglega að málum er varða kynbundið ofbeldi og áreitni.
Rakel var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „#Metoo-byltingin er ekkert komin neitt lengra en það að við höfum verið að benda á það hjá FKA að það er ennþá töluverð þöggun í atvinnulífinu. Og þetta mál sem er að koma upp hjá Orkuveitunni og ON er í rauninni bara birtingarmynd af því sem er að gerast víðar,“ sagði hún.
Margar konur fastar í þöggun
Rakel sagði að það væri vilji FKA að mál Áslaugar yrði tekið „alla leið“ og að það yrði öðrum vinnustöðum víti til varnaðar. „Við vitum að það er fullt af konum, sambærilegum konum og Áslaugu Thelmu, sem eru ennþá fastar í þöggun. Annað hvort hræddar um að ef þær stíga fram þá missi þær starfið sitt. Síðan höfum við heyrt um að það sé verið að sviðsetja uppsagnir í kjölfar þess að þú lætur vita, hvort sem það telst formleg leið eða óformlega.“
Rakel sagði að uppsögn Áslaugar hefði verið trúverðugri ef brugðist hefði verið við kvörtunum hennar á þeim 18 mánuðum sem liðu frá því hún sagðist fyrst hafa lagt fram kvörtun þar til henni var sagt upp. „Það er í raun aldrei rétt að málum staðið þegar það þarf að koma hlutunum í fréttir og umræðu til þess að kalla svona viðbrögð fram. Ég get ekki hrósað fyrir eitthvað sem gerist í kjölfar fréttaflutnings,“ sagði Rakel. Hún vísar þar til þess að þrír menn hafi nú vikið úr starfi vegna málsins. Bjarna Má Júlíussyni var sagt upp starfi framkvæmdastjóra ON vegna óviðeigandi framkomu. Þórður Ásmundarson, sem tilkynnt var á fimmtudag að tæki við af Bjarna Má var sendur í leyfi vegna áskana um kynferðisbrot. Þá hefur Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, vikið tímabundið.