„Skömm er í rauninni samheiti yfir allar þær tilfinningar sem kvikna í okkur þegar við upplifum einhvers konar minnkun. Við föllum niður virðingastigann,“ segir Guðbrandur Árni Ísberg, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri meðferð.

Guðbrandur Árni er höfundur bókarinnar Skömmin: Úr vanmætti í sjálfsöryggi. Hann segir í viðtali við Mannlega þáttinn að minnkunin geti verið mismikil, allt frá því að mismæla sig yfir í það að vera niðurlægður alvarlega. Skömmin er flókin tilfinning. Í jafnvægi hjálpar hún okkur að tengjast öðrum og gæta virðingar í samskiptum. Þegar hún fer út böndunum brotnar sjálfsmyndin, okkur finnst við einskis virði og langar mest til að fara í felur.

Rauð og hvít skömm

Á fræðilegum vettvangi er talað um skömm sem fjölskyldu af tilfinningum og í Skandinavíu er þeim gjarnan skiptu upp í rauða skömm og hvíta skömm. En hvað er átt við með því? „Ástæðan fyrir því að sumar tilfinningarnar falla undir rauða skömm er að þegar við upplifum þær þá roðnum við. Á íslensku tölum við um að vera feiminn, fara hjá sér, að þykja eitthvað vandræðalegt,“ segir Guðbrandur. „En svo eru það hvítu skammartilfinningarnar, þar sem við upplifum þær sterkastar: Auðmýking, niðurlæging og smán. Þá roðnum við ekki, heldur stirðnum og verðum náföl.“ Hann segir að á ensku sé talað um embarrassment fyrir rauða skömm og shame fyrir þá hvítu og þær tilfinningar sem þeim fylgja.

Barn lærir skömm fljótlega eftir fæðingu

„Það sem er svo mikilvægt, það sem er svo mikil misskilningur með skömmina, er að halda að vegna þess að hún er alltaf óþægileg þá hljóti hún að vera vond. Það er ekki rétt,“ segir Guðbrandur. Hann segir sem dæmi að þegar börn byrja að skríða þá haldi þau að þau geti allt og megi allt. En þá þurfi fullorðna fólki, foreldrarni, að setja bremsur á þau, svo þau fari sér ekki að voða. Þá fara foreldrarnir að „skamma“ þau, til að stöðva hegðun sem ekki er í lagi, eða getur verið börnunum hættuleg. „Þá upplifa börnin hvíta skömm og þau stirðna og þeim líður hræðilega með sjálf sig. En það sem þá er mikilvægt að gera, er að um leið og barnið hefur hlítt manni, þá tengist maður því aftur og knúsar það og kyssir og lætur það vita að það sé elskuverðugt.“ Guðbrandur segir að í gegnum ótal þess háttar atvik læri barnið að það sé elskuverðugt en að það geri stundum eitthvað sem er ekki í lagi. Þannig læri börnin reglur samfélagsins. Að hafa hemil á því sem þau langar til og að taka tillit til annarra. „Og það er í rauninni, þróunarsögulega séð, hlutverk skammarkerfisins, að gera okkur mennsk og hjálpa okkur að umgangast af virðingu.“

Þú ert ekki í lagi

„Það sem rauða skömmin miðlar til manns er: Annað hvort gerði ég eitthvað, mér varð á, eða einhver var að sýna mér óvirðingu. Þá roðna ég og verð ofurmeðvitaður um sjálfan mig og fer að hugsa, hvað er í gangi? Gerði ég eitthvað eða var verið að gera eitthvað við mig?“ segir Guðbrandur. „En þegar hins vegar hvíta skömmin kemur, þá segir hún í raun og veru Þú ert ekki í lagi.“ Hann segir að hættan sé að fólk festist í hvítri skömm, hvort sem því er nauðgað eða beitt einhvers konar grófu andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Hann segir djúpa hvíta skömm leiða af sér þörfina fyrir að fela og einangra sig. „Rannsóknir sýna að það er engin tilfinning sem tengist sjálfsvígshugsunum, tilraunum og eiginlegum sjálfsvígum eins mikið eins og skömmin.“  

Þurfum að læra að tempra skömmina

Guðbrandur segir að hvíta skömmin geti fylgt manni lengur en sú rauða, „Ástæðan fyrir því að skömmin er svona áhrifamikil tilfinning er að um leið og hún fer í gang þá dregur hún úr sjálfsálitinu okkar, hversu mikils virði okkur finnst við vera. En það er nákvæmlega það sem hún á að gera. Vegna þess að stundum þurfum við aðeins að staldra við og hugsa: Úps, gerði ég eitthvað þarna? Fór ég yfir einhver mörk? En ef við kunnum ekki á hana, getum ekki temprað hana og komið henni í jafnvægi, þá festumst við í hvítu skömminni. Við förum við smátt og smátt frá því að hugsa, mér finnst ég ekki vera í lagi, yfir í að hugsa ég er ekki í lagi,“ sem sé skaðlegt fyrir sjálfsmyndina.

Viðtalið við Guðbrand Árna, sem var í Mannlega þættinum, má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.