Mörgum landsmönnum brá í brún þegar Björgvin Páll Gústavsson handboltakappi birti einlæga stöðuuppfærslu á Facebook fyrr á árinu þar sem hann sagðist vera kominn með nóg af þeim manni sem hann hefði verið þangað til. Hann fellir grímuna í nýrri bók og fjallar á einlægan og opinskáan hátt um kvíðann sem hann hefur glímt við.
Þegar Björgvin Páll Gústavsson handboltastjarna las bókina Á eigin skinni – betri heilsa og innihaldsríkara líf eftir Sölva Tryggvason, þar sem Sölvi lýsir því þegar hann missti heilsuna fyrir um áratug síðan, tengdi hann við ýmislegt í opinskárri frásögn Sölva. Björgvin var þá að ganga í gegnum mikla sjálfsskoðun í kjölfar heilsubrests og hann hafði setið löngum stundum fyrir framan tölvuskjáinn og skrifað um reynslu sína. Björgvin hafði samband við Sölva og sýndi honum það sem hann var kominn með og ákvað Sölvi að slá til og aðstoða hann í að setja textann í bókaform. Bókin sem heitir Björgvin Páll Gústavsson - Án filters kom út núna fyrir jólin en í bókinni segja þeir Björgvin og Sölvi frá því hvernig Björgvin Páll áttaði sig á að hann væri að glíma við erfið andleg veikindi og frá bataferlinu sem enn stendur yfir. Björgvin Páll og Sölvi voru gestir Gunnars Hanssonar í Mannlega þættinum.
Hárréttur tímapunktur fyrir bókina
„Þegar ég sá textann sem Björgvin hafði sjálfur skrifað, um hundrað blaðsíður, þá áttaði ég mig á að hann væri mun betri en ég hafði reiknað með. Það var því búið að vinna mikla undirbúningsvinnu fyrir mig,“ segir Sölvi. „Ég sé að þetta var hárréttur tímapunktur til að gefa út þessa bók. Hann átti ekki að bíða með þetta.“
Skalf af hræðslu einn á hótelherberginu
Björgvin rifjar það upp þegar lífið svo að segja hrundi yfir hann á kirkjutröppum í Köln um miðja nótt þegar liðið var statt í Þýskalandi á stórmóti. Mótinu var að ljúka, Íslandi hafði ekki gengið eins vel og liðið hafði vonað og Björgvin er einn uppi á herbergi á hótelinu sem þeir dvöldu á. Skyndilega finnur hann tilfinningu sem hann hafði aldrei fundið áður. „Ég skalf og fann fyrir hræðslu og vissi að ég þyrfti að komast út að fá ferskt loft,“ segir hann. Klukkan var hálf tvö um nótt og hann hafði ekkert sofið. „Á göngunni átta ég mig á að það er eitthvað alvarlegt að svo ég geng hraðar og hraðar. Ég kem að lestarstöðinni í Köln sem ég hafði komið á svona hundrað sinnum en allt í einu þarna finnst mér allir vera hryðjuverkamenn svo ég byrja að hlaupa í kringum lestarstöðina. Ég enda á kirkjutröppunum þar sem ég brotnaði niður.“
Búinn að gefa þessum „geðveika handboltamanni“ of mikið pláss
Þarna er Björgvin að fá sitt fyrsta ofsakvíðakast. Hann áttaði sig á því eftir á að það voru ýmsir samverkandi þættir sem ollu þessu kasti, meðal annars fjarveran frá fjölskyldunni, atburðir úr fortíðinni og slæmt gengi á mótinu. Hann segist hafa gert sér grein fyrir því eftir mikla sjálfsskoðun að hann hafi lengi verið haldinn þessum kvíða án þess að átta sig á einkennunum enda hafði hann notað handboltann sem vopn gegn veikindunum og brynjað sig gagnvart kvíðanum með því að skapa sjálfum sér ímynd harða töffarans sem er mjög ólíkur þeim manni sem býr innra með honum í raun. „Ég áttaði mig á að ég væri búinn að gefa þessum „geðveika handboltamanni“ allt of mikið pláss og það var að bitna á hinni týpunni sem er þessi létti trúður sem ég vil vera.“
Björgvin hafði verið að glíma við ýmsa kvilla þegar hann brotnaði niður á kirkjutröppunum. Hann hafði þjáðst af þrálátum höfuðverk, fékk blóðnasir á morgnana og hafði verið greindur með vefjagigt og fann fyrir miklum líkamlegum sársauka sem kvíðinn olli. „Maður lýgur að sér að vandinn sé allt annar en hann er,“ segir hann alvarlegur enda er það stór hluti af hans starfi að þola mikinn líkamlegan sársauka. „Sem handboltamaður er mín vinna að slökkva á sársauka. Þú færð bolta í þig á hundrað kílómetra hraða tvö hundruð sinnum á dag, sem er í raun galin vinna ef þú spáir í því,“ segir hann kíminn og rifjar það upp þegar hann var unglingur og fékk fast skot í hausinn á æfingu og var hrósað fyrir að kveinka sér ekki. „Ég stend það af mér. Verð reiður en fer ekki að gráta og fyrir það fæ ég viðurkenningu,“ segir hann. „Fólk segir: „Hann er harður og flottur, hann stendur þetta af sér,“ og þá mynda ég mér þá skoðun að þetta sé sá sem ég er. Við erum alltaf að búa til karaktera sem er mótaður af samfélaginu en þessi karakter sem ég byggi upp er fjarlægur þeim sem ég vil vera.“
Gat ekki valið sokka vegna kvíða
Það varð hálfgerð uppljómun fyrir Björgvin Pál að lesa bók Sölva og hann hjó sérstaklega eftir einni setningu í bókinni sem sat í honum. „Setningin var um að hann væri farinn að vona að hann væri með krabbamein og það er hugsun sem ég hafði hugsað líka því í þessum sjálfsvorkunnarleik er þetta þannig að þú vilt bara svör og greiningu á því hvers vegna manni líður svona illa. Þarna fatta ég alvarleika málsins. Maður er kominn í neikvæðan spíral hugsana sem verður til þess að maður hugsar svona.“
Sölvi tekur undir en bendir á að hann hafi sjálfur áttað sig á því þegar hann var kominn á betri stað hvað það er vanþakklátt að hugsa á þennan hátt. „Til allrar guðs mildi hef ég ekki greinst með krabbamein en hafandi gengið í gegnum mitt erfiðasta tímabil er skiljanlegt að maður hugsi svona þegar manni líður ömurlega og fer á milli lækna en fær engin svör. Þá hugsar maður að ef maður væri með greiningu sem væri alvarleg væri hægt að segja: Sölvi, það er eðlilegt að þér líði illa. Sérstaklega þegar þú ert ungur karlmaður og fólk sér þennan heilbrigða gæja sem er að gera fína hluti en þú ferð að væla því þú getur ekki valið sokka því þú ert svo kvíðinn.“
Aldrei í betra formi en núna
Það var meðvituð ákvörðun hjá Björgvini að skrifa og gefa út bókina í miðju bataferlinu því hann vildi sýna stöðuna eins og hún væri á þessum tímapunkti. „Ég setti sjálfan mig á bekkinn og spurði mig hvar ég væri og hvar þetta byrjaði. Ég varð minn eigin sálfræðingur,“ segir hann sem áttaði sig mikið á því hvað honum fór að líða betur líkamlega eftir að hann byrjaði að huga að andlegu heilsunni. „Ég varð líka betri inni á vellinum og hef aldrei verið í betra standi en akkúrat núna.“
Stundum best að leggjast í rúmið og klappa sér
Sölvi segist í dag oft vera spurður hvað hann geri til að takast á við kvíðann og hann svarar að það sé sérstaklega mikilvægt að greina alvarleika kvíðans í hvert sinn og bregðast við honum eftir því. „Stundum er þetta bara smá kvíði og þá er kannski nóg að taka nokkur símtöl og klukkutíma síðar er manni farið að líða betur. Stundum er kvíðinn hins vegar kominn á það stig að sterkasta aðgerðin sem hægt er að ráðast í er að leggjast upp í rúm, taka utan um sjálfan sig og segja: „Þetta er bara of erfitt núna til að ég geti gert nokkurn skapaðan hlut og ég ætla ekki að rífa mig niður.“ Það er ekki alltaf lausnin að ætla að ráðast á þetta og sigra, stundum þarf að stíga til baka og segja: „Þetta er ömurlegt en það líður hjá og ég ætla ekki að vera vondur við mig á meðan. Ég ætla að leggjast og klappa mér og segja, þetta er flott barátta.“
Börn sem sýna slæma hegðun þurfi stundum bara knús
Viðbrögðin við bókinni hafa rokið langt fram úr væntingum Sölva og Björgvins sem segist fyrir tveimur dögum hafa verið kominn með yfir þrjú hundruð skilaboð frá fólki á öllum aldri sem tengi við efni hennar. „Stundum eru krakkar að senda mér skilaboð án vitundar foreldra sinna og stundum foreldrar án vitundar barna. Vandamálið er svo stórt að maður áttar sig ekki á því fyrr en maður fær skilaboðin,“ segir hann og bætir því við að það sé mikilvægt að andlegir kvillar séu greindir hjá börnum miklu fyrr og að þau fái í hendurnar réttu verkfærin til að takast á við þau. „Það er miklu auðveldara að gefa börnum vopn en að reyna að laga fullorðinn einstakling.“
Rætt var við Björgvin Pál Gústavsson og Sölva Tryggvason í Mannlega þættinum.