Hætta skapaðist þegar farþegaþota Icelandair flaug óeðlilega nálægt jörðu í vonskuveðri í aðflugi að Keflavíkurflugvelli í október. Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar málið og telur það alvarlegt.
19. október var sunnanrok og rigning og lágskýjað á suðvesturhorni landsins. Boeing 757-þota Icelandair sem var að koma frá Glasgow kom að Keflavíkurflugvelli úr norðri, og átti að lenda klukkan rúmlega þrjú. Vegna framkvæmda á norður/suður-flugbrautinni gátu flugmennirnir ekki notað flugleiðsögukerfi flugvallarins, en notuðust í staðinn við GPS-tæki.
Þegar flugvélin var komin rétt inn yfir ströndina gerðist eitthvað sem varð til þess að hún var allt í einu komin mjög nálægt jörðu. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia lenti vélin í niðurstreymi lofts, en aðrar heimildir fréttastofu segja óljóst hvers vegna hún lækkaði flugið svo mikið.
Vélin virðist, samkvæmt heimildum fréttastofu, lægst hafa verið í um 300 feta hæð, sem eru um 90 metrar, en þá átti hún enn eftir um fimm kílómetra að flugbrautinni, samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Þotan var það nálægt jörðu að jarðvari, sérstakt kerfi sem varar flugmenn við nálægð við jörðu, fór í gang.
Ef flugvélin hefði haldið áfram að lækka flugið með sama hraða án inngripa flugmannanna hefði það tekið hana aðeins örfáar sekúndur að lenda í jörðinni. Flugmennirnir náðu að hækka flugið, og hættu við lendingu. Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar þessa atburðarás nú sem alvarlegt flugatvik, hvernig það gat gerst að þotan var þetta nálægt jörðu svo fjarri flugbrautinni. Búið er að afla gagna en rannsóknin mun vera skammt á veg komin.
Eftir að hætt var við lendingu var flogið hring og reynt að lenda úr vestri. Þar leist flugmönnunum ekki á vindinn, samkvæmt upplýsingum frá Isavia, og flugu því annan hring, og náðu þá að lenda úr vestri, tæpum hálftíma eftir að hætt var við fyrsta aðflugið.