Erlendur Ingvarsson, sauðfjárbóndi á Skarði í Landssveit, segist vera farinn að ókyrrast vegna þurrka. Það hefur ekki rignt svo heitið geti frá 20. maí, þó að það hafi komið smá skvetta fyrir rúmri viku.
„Það er stutt niður á hraunið hjá okkur þannig að það vatn sem kemur hérna hjá okkur missum við voðalega hratt niður í jörðina, þannig að við þurfum alltaf að fá það helst með reglulegu millibili svo að það dafni allt í gróðri.“
Gott vor hjálpar núna
Skarð er talsvert langt inni í landi og þar er oft þurrara en með ströndinni. „Það sem hjálpar okkur er að fram að þeim tíma var eitthvert besta vor sem að elstu menn hafa upplifað,“ segir Erlendur, það hjálpi til núna. Hefði vorið ekki verið svona gott væri allt fé meira og minna á gjöf eða hefði aðgang að fóðri.
Skarð er eitt stærsta sauðfjárbú á Suðurlandi. Þar eru tæp 1100 fjár á fóðrum og sauðburður gekk vel. „Maður einhvern veginn hélt að maður væri sloppinn en það er fljótt að breytast. Stærsti hlutinn af okkar túnum er á sandi og þau eru ekki farin að brenna, þau voru komin vel til og hafa svo sem haldið þessum litla raka sem var kominn í þau,“ segir hann.
Hætt við að túnin brenni
Það hafi líka hjálpað að síðustu dagar hafi verið kaldir. „En núna er annað uppi á teningnum. Það spáir bara hitabylgju og hitinn er hér að fara yfir 20 stig í vikunni. Þá er voða hætt við að hlutirnir fari að gerast hratt á hinn veginn, að það fari að brenna hjá okkur,“ segir Erlendur.