Hægt er að skoða allt höfuðborgarsvæðið í þrívídd með nýrri tækni sem aðgengileg verður á netinu innan skamms. Þegar er hægt að skoða Kópavog í þrívídd, og mæla til dæmis hæð bygginga eða trjáa með nákvæmum hætti.

Fyrirtækið Loftmyndir flaug í haust yfir allt höfuðborgarsvæðið og skannaði það með sérstökum geisla. Afraksturinn er sá að nú er hægt að skoða allt svæðið í þrívídd, í fyrsta skipti.

„Þetta eru mjög áhugaverðar upplýsingar til þess að nýta í skipulagsvinnu, alls konar framkvæmdir og hönnun. Og krafan um stafræn gögn, góðar upplýsingar og landakort er alltaf að verða ríkari,“ segir Karl Arnar Arnarson, framkvæmdastjóri Loftmynda.

Karl segir að tæknin geti nýst mörgum, sérstaklega þeim sem ætla að ráðast í framkvæmdir, hvort heldur er litlar eða stórar.

„Vegagerð, þar eru þetta mjög mikilvægar upplýsingar og menn geta sparað sér á móti mælingar með GPS-tækjum.“

Frá sínu sjónarhorni

Nú þegar er hægt að skoða Kópavog í þrívídd í gegnum vefsíðu bæjarins en fljótlega verður einnig hægt að skoða önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Forritið býður upp á fjölmarga möguleika, meðal annars að mæla nánast hvað sem er, láta allar byggingar hverfa, eða allan gróður, eða þá að láta bara gróðurinn standa eftir og sjá þannig hversu mikill gróður er á höfuðborgarsvæðinu. Þá prófaði Karl að skella Óperuhúsinu í Sidney í Reykjavíkurhöfn.

„Það stendur auðvitað ekki til að neitt slíkt rísi en þá sjá menn kannski möguleikana sem þetta býður upp á, að taka eigið skipulag eða eigin hugmyndir og svo getur bara hver sem er farið inn og skoðað frá sínu sjónarhorni.“

Þjónustan verður ókeypis á vefnum, en sveitarfélögin standa straum af kostnaði við verkefnið, sem hleypur samtals á tugum milljóna.