Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gefur kost á sér til endurkjörs til embættis forseta Íslands. Fyrsta kjörtímabili hans lýkur í sumar.
„Rúmlega þrjú ár eru að baki, viðburðarík og minnisstæð. Hvað tekur við? Því ræður auðna en segja má tímabært og tilhlýðilegt að lýsa því nú yfir að ég hyggst gefa kost á mér til frekari setu hér á Bessastöðum,“ sagði forsetinn í nýársávarpi sínu.
Þetta sé ekki sjálfsögð ákvörðun, segir Guðni, heldur tekin að vel athuguðu máli í samráði við hans nánustu.
„Hvern dag finn ég þá ábyrgð sem þessu starfi fylgir, hvern dag finn ég þann einstaka heiður sem mér hlotnaðist. Við Eliza kona mín þökkum þann hlýhug sem við höfum notið. Við þökkum líka að Íslendingar leyfa ábúendum á Bessastöðum að eiga sitt fjölskyldu- og einkalíf í friði. Ekki geta þjóðhöfðingjar í mörgum öðrum löndum gengið að því sem vísu.“
Fagnar hugmyndum um breytingar
Guðni fjallaði aðeins um stjórnarskrána og hugmyndir nefndarmanna í stjórnarskrárnefnd sem nú sé að störfum. „Nefndarmenn hafa hreyft þeirri hugmynd að takmarka hversu lengi hver megi vera á forsetastóli. Þá hafa þeir rætt aðrar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Þessu ber að fagna.“
Undanfarin ár hafi verið tekist á um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og þeir vilji ganga lengst sem hampi nýrri stjórnarskrá stjórnlagaráðs. Skemmst vilji þeir ganga sem telji að litlu sem engu þurfi að breyta. „Lyktir munu ráðast af vilja kjósenda og þeirra fulltrúa sem þeir velja til setu á Alþingi. Eðlilegt er að forseti hverju sinni fylgist með framvindu á þessum vettvangi og leggi sitt til mála ef þurfa þykir.“
Guðni er sjötti forseti Íslands og yngstur til að taka við embættinu. Hann var kjörinn í forsetakosningunum 25. júní 2016 með 39,08 prósentum atkvæða og tók við embættinu 1. ágúst 2016.