Danir eiga heimsmet í sælgætisáti og það þykir heilbrigðisyfirvöldum þar í landi miður. Í sveitarfélaginu Hvidovre hefur verið blásið til átaks og fólk hvatt til að gera eitthvað annað en að borða nammi þegar það ætlar að hafa það huggulegt.

Könnun, sem gerð var í hundrað löndum, leiddi í ljós að Danir borða mest allra af sælgæti. Hver Dani kaupir að meðaltali 12,3 kíló af nammi á ári. Gosdrykkjaneyslan er 87 lítrar á mann á ári. 

„Þegar við hittum aðra troðum við einhverju upp í okkur. Táningar eiga næga peninga, það er mikið framboð af sælgæti og annarri óhollustu, sem gerir þetta auðvelt og aðgengilegt,“ segir Preben Vestergaard Hansen, næringarfræðingur.

Matvælarannsóknastofnun Danska tækniháskólans, DTU, og heilsugæslan í Hvidovre, sem er í nágrenni Kaupmannahafnar, hafa blásið til átaks næstu þrjú árin. Ætlunin er að berjast gegn svokallaðri nammimenningu, sérstaklega hjá barnafjölskyldum

Anja Biltoft-Jensen, verkefnastjóri við stofnunina, segir að gefnar verði nýjar ráðleggingar um magn sætinda í heilbrigðu mataræði og gagnvirkt fræðsluefni gefið út. „Það þarf mikið til að breyta rótgróinni siðvenju en við vonum að þetta sé skref í rétta átt,“ segir hún.