Þorgerður Agla útgefandi er annar stofnandi útgáfunnar Angústúru sem hefur vakið athygli fyrir smekklega bókahönnun og eftirtektarverðar þýðingar á heimsbókmenntum. Hún lenti í ástarsorg fyrir rúmum áratug en fann ástina á ný með textahöfundi lagsins sem kom henni í gegnum bömmerinn.

Þorgerður Agla ólst upp innst í Önundarfirði á Vífilsmýrum, hjá foreldrum sínum, á sveitabæ. Hún átti sér draum um að flytja til ömmu sinnar sem bjó í Reykjavík, fara í ballett og læra á píanó. Allt kom þó fyrir ekki og þó að sveitalífið hafi ekki alltaf átt við hana þykir henni enn afar vænt um bæinn sinn sem nú er horfinn. Hún hlaut þó ákveðið tónlistaruppeldi þrátt fyrir píanóleysið, grúskaði í plötusafni foreldra sinna og hlustaði á Bítlana og síðar Glám og Skrám þegar hún var byrjuð að eignast sínar eigin plötur.

Hún fór í söngnám þegar hún varð eldri, lærði bókmenntafræði í Háskólanum, flutti til Ítalíu og lærði ítölsku og hóf síðar störf hjá Bjarti útgáfu. Lífshlaupi hennar má lýsa sem röð tilviljanna og hún virðist óhrædd við að leyfa því að leiða sig á óvæntar slóðir. „Lífið gerist, maður getur alveg planað en svo bara gerist eitthvað,“ segir hún glettin. „Það er eins og John Lennon segir á plötunni Double Fantasy: Lífið er það sem hendir þegar maður er upptekin við að gera önnur plön.“ Þegar litið er yfir farinn veg má þó sjá hvar eitthvað, sem svipar til örlaga, virðist hafa gripið í taumana.

Hún hafði verið að ferðast um heiminn og komið víða við áður en hún byrjaði í útgáfubransanum. „Ég hafði verið að kenna í grunnskóla, unnið í leikskóla sem var svakalega erfitt. Ég kannaðist við fyrrum eiganda og forleggjara Bjarts, Snæbjörn Arngrímsson, í gegnum minn fyrrverandi mann Steinar Braga.“ Í kjölfarið byrjaði Agla í útgáfubransanum og var augljóslega á heimavelli.

Þýðendur eru fjölfrótt fólk sem þekkir furðukima

Eftir nokkurra ára útgáfustörf hjá Bjarti hóf hún störf hjá Bókmenntasjóði. „Þegar ég fékk starfið þar var ég svo undrandi að ég var alveg bara, ha?“ rifjar hún upp og hlær. Seinna varð Bókmenntasjóður að Miðstöð íslenskra bókmennta þar sem hún vann í átta ár. „Starfið fólst í að halda utan um umsóknir og styrki til þýðinga og útgáfu hérlendis, og þýðingar á íslenskum verkum erlendis. Að halda utan um styrkveitingar og útlöndum og standa að kynningum á íslenskum bókmenntum erlendis.“

Þorgerður tók kúrs í þýðingum í námi sínu og hefur alltar götur síðan haft áhuga á þeim. „Ég var einmitt að hugsa um daginn um Ilminn eftir Patrick Süskind sem Kristján Árnason heitinn þýddi og viðtal sem ég las við hann. Þetta er stórkostleg þýðing og ég er svo áhugasöm um viðtöl við þýðendur. Ég byrjaði að hugsa þegar ég las það: Af hverju er ekki alltaf verið að taka viðtöl við þýðendur? Þetta er fjölfrótt fólk sem þarf að þekkja og kynna sér svo marga furðukima.“

Eins og að fá fótanudd í pósti

Á vegum Angústúru leggja forleggjarar mikla áherslu á þýðingar. Þær ákváðu að láta þýða bækur frá fjarlægum heimshornum og framandi menningarheimum, úr tungumálum sem ekki er oft þýtt úr yfir á íslensku, og kynna íslenskum lesendum. „Við reynum að horfa út fyrir Evrópu og hinn vestræna heim, reynum að hafa jafnt kynjahlutfall en gefum líka út bækur sem við fílum sjálfar og viljum að sem flestir lesi.“ Hún segir að þær hafi þó þurft að brjóta heilann lengi um hvernig hægt væri að láta slíkan draum rætast. „Við hugsuðum með okkur hvernig í fjandanum við ættum að láta þetta ganga, þetta er galin hugmynd á svo litlum markaði.“

Þorgerður gat þó nýtt sér kærkomna reynslu úr útgáfubransanum og Miðstöðinni en María Rán Guðjónsdóttir sem rekur forlagið með henni hafði einnig unnið mikið hjá útgáfum. „Við kynntum okkur hvernig þetta væri gert erlendis hjá unga fólkinu sem er heitt fyrir að færa sínu málsamfélagi eitthvað nýtt. Þá fundum við út að það, að vera með bækur í áskrift, væri málið en að til dæmis bókaklúbbar væru deyjandi.“

Þó að munurinn á þessu tvennu sé ekki augljós ákváðu þær í Angústúru að slá til að prufa að bjóða fólki að vera með bækurnar í áskrift og viti menn. „Við sendum fólki fjórar bækur heim en við leggjum mikið upp úr að bókin sé fallegur prentgripur og að hönnunin og pakkinn séu falleg. Allt til þess fallið að vekja tilhlökkun og gaman hjá áskrifendum.“ Einn spenntur áskrifandi hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að það væri svipað því að fá fótanudd í pósti að fá Angústúrubók inn um lúguna. „Við vorum að leitast eftir slíkum áhrifum og það hefur gengið mjög vel,“ segir Þorgerður Agla.

„Hann var minn landgangur“

Þorgerður Agla valdi lög sem tengjast hugmyndum hennar um hvað það er að vera heima í Tengivagninum hjá Kristjáni Guðjónssyni og Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Eitt lagið sem hún valdi mætti kalla ákveðinn örlagavald í lífi hennar en það er lagið Landgangur með Ragnheiði Gröndal. Lagið hlustaði hún mikið á þegar hún bjó ein í Laugarnesinu. „Ég var nokkuð nýskilin og í ansi mikilli ástarsorg þegar vinkona mín gaf mér diskinn sem heitir Vetrarljóð.“

Hún segist ekki hafa byrjað að hlusta á hann strax, en eftir að hún setti hann fyrst í spilarann þá spilaði hún vart annað um hríð og þá sér í lagi lagið Landgang. „Svo kynntist ég þessum manni sem er textahöfundur lagsins, Hallgrími Helgasyni,“ rifjar hún upp sposk.

Kynnin áttu eftir að verða ansi náin en Hallgrímur er í dag eiginmaður Þorgerðar og barnsfaðir. „Mér fannst svo undarlegt að ég hefði verið að hlusta á þetta lag þarna. Það er ástarsorg þarna og það má segja að hann hafi verið minn langangur.“

Hún segist ekki útiloka að hér hafi vélar undirmeðvitunarinnar malað í laumi. „Undirmeðvitundin veit eitthvað um framtíðina sem er manni sjálfum hulið,“ segir hún. „Það má mæla í bollum tárin sem ég grét yfir þessu lagi, hann hjálpaði mér að grenja allt hitt úr systeminu.“

Rætt var við Þorgerði Öglu í Tengivagninum en hægt er að hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.